• þri. 10. sep. 2019
  • Landslið
  • A karla

A karla - 2-4 tap gegn Albaníu

Mynd - fotbolti.net - Hafliði Breiðfjörð

Ísland tapaði 2-4 gegn Albaníu í undankeppni EM 2020. Gylfi Sigurðsson og Kolbeinn Sigþórsson skoruðu mörk Íslands.

Albanir byrjuðu leikinn vel og voru betri aðilinn, héldu boltanum ágætlega en tókst ekki að skapa sér nein góð færi. Besta færi á fyrstu 15 mínútunum var aukaspyrna rétt fyrir utan teig Íslands. Rey Manaj tók hana en skaut beint í varnarvegginn.

Það var svo eftir 26. mínútu sem fyrsta færi Íslands kom. Jón Daði Böðvarsson sendi boltann þá fyrir á Gylfa, en skot hans fór framhjá.

Tíu mínútum síðar áttu bæði lið ágætis færi fyrir utan teiginn. Ari Freyr Skúlason átti skot beint á markvörð Albana og Keidi Bare setti boltann framhjá úr ágætis færi.

Aðeins mínútu eftir skot Bare skoruðu heimamenn fyrsta mark leiksins. Memushaj setur boltann fyrir eftir stutta hornspyrnu og Kastriot Dermaku stangar boltann í netið.

Albanir settu aukna pressu á íslensku vörnina eftir markið, en án árangurs. Staðan því 1-0 í hálfleik.

Ísland byrjaði síðari hálfleikinn frábærlega, en strax á 48. mínútu jafnaði Gylfi metin eftir góða sendingu Rúnar Más Sigurjónssonar. Það tók hins vegar Albaníu aðeins fimm mínútur að komast yfir aftur. Þar var að verki Elseid Hysaj eftir frábært samspil.

Albanía var nálægt því að bæta við þriðja marki sínu stuttu eftir þetta, en þeim tókst það þó ekki. Á 55. mínútu kom Kolbeinn Sigþórsson inn á, en útaf fór Emil Hallfreðsson. Þremur mínútum síðar var Kolbeinn búinn að skora með sinni fyrstu snertingu! Boltinn barst inn í teig til hans og Kolbeinn hamraði boltann í netið. Staðan orðin 2-2!

Þremur mínútum síðar átti Jón Daði skall yfir úr ágætu færi. Það var ljóst að markið gaf Íslandi aukinn kraft og næstu mínúturnar settu þeir aukna pressu á vörn Albaníu, en það vantaði herslumuninn til að komast í opin færi.

Á 71. mínútu kom Hörður Björgvin Magnússon inn á fyrir Birki Bjarnason.

Albanir sóttu nokkuð stíft næstu tíu mínúturnar, en áttu í erfiðleikum með að opna vörn Íslands. Þeim tókst þó á 79. mínútu að skora. Þá átti Odishe Roshi skot sem fór af Kára Árnasyni og í netið. Fjórum mínútum síðar bætti Sokol Cikalleshi við fjórða marki Albana.

Á 85. mínútu kom Viðar Örn Kjartansson inn á fyrir Jón Daða Böðvarsson.

Ísland reyndi að komast aftur inn í leik, en án árangurs og 2-4 tap staðreynd.