• fim. 19. mar. 2020
  • Fræðsla

Breyting á menntunarkerfi KSÍ

Mynd - fotbolti.net - Hafliði Breiðfjörð

KSÍ er, ásamt öllum aðildarþjóðum UEFA, aðili að Þjálfarasáttmála UEFA. Í stórum dráttum þýðir það að þjálfaragráður KSÍ eru metnar til jafns við sömu þjálfaragráðu í öllum 55 aðildarríkjum UEFA.

Fyrirhugaðar eru breytingar á Þjálfarasáttmála UEFA. Þær fela meðal annars í sér að allar aðildarþjóðir UEFA þurfa að innleiða UEFA C þjálfaragráðu.

KSÍ er því þessa dagana að vinna í að innleiða þær breytingar sem fyrirhugaðar eru og ljóst er að það mun hafa áhrif á núverandi menntunarkerfi KSÍ. Tafla til útskýringar er hér fyrir neðan.

Hugmyndin er að núverandi KSÍ I og KSÍ II þjálfaranámskeið verða í framtíðinni KSÍ C 1 og KSÍ C 2 þjálfaranámskeið (skýringarmynd neðst í fréttinni), sem munu þá mynda KSÍ C þjálfaragráðu (UEFA C þjálfaragráðu). Þær breytingar munu einnig hafa það í för með sér að KSÍ B þjálfaragráðan breytist. Hún mun í framtíðinni samanstanda af KSÍ B 1, KSÍ B 2, KSÍ B 3 og KSÍ B 4 þjálfaranámskeiðum, ásamt KSÍ B þjálfaraskóla.

Núverandi KSÍ III þjálfaranámskeið mun þá verða KSÍ B 1 þjálfaranámskeið, núverandi KSÍ IV A þjálfaranámskeið mun þá verða KSÍ B 2 þjálfaranámskeið, núverandi KSÍ IV B þjálfaranámskeið mun þá verða KSÍ B 3 þjálfaranámskeið og KSÍ B 4 verður nýtt þjálfaranámskeið.

Nú er það þannig að nokkrir þjálfarar hafa fengið heimild til að taka þjálfaranámskeið án þess að hafa lokið við undanfara þess námskeiðs. Til að mynda eru dæmi þess að þjálfarar hafa fengið að taka KSÍ IV B námskeið án þess að hafa lokið við KSÍ IV A námskeið o.s.frv. Þessum þjálfurum og öðrum sem nú þegar hafa byrjað á KSÍ B þjálfaragráðunni mun gefast kostur á því næsta vetur (2020-2021) að klára þau námskeið sem þau eiga eftir og til að klára KSÍ B þjálfaragráðuna í núverandi mynd.

Innleiðing nýs kerfis mun því hefjast haustið 2021.