• þri. 21. apr. 2020
  • Mótamál
  • COVID-19

Undirbúningur miðast við að mót geti hafist í júní

KSÍ hefur ákveðið að hefja undirbúning á því að keppni í mótum sumarsins geti hafist í júní, með þeim fyrirvara að staðan í þjóðfélaginu verði þá orðin þannig að Almannavarnir geti heimilað leikjum að fara fram.  Öll mót verða því tekin úr birtingu á vef KSÍ og birt að nýju þegar starfsfólk mótamála hefur stillt upp nýrri niðurröðun leikja, sem verður birt eins fljótt og við verður komið.  Í undirbúningnum er miðað við neðangreindar forsendur.

Keppni meistaraflokks

  • Mjólkurbikar karla og kvenna hefjist um 5. júní.
  • Pepsi Max deild karla hefjist um 14. júní.
  • Pepsi Max deild kvenna hefjist um 16. júní.
  • Önnur mót meistaraflokka hefjist um 18.-20. júní

Mót yngri flokka

  • Gert er ráð fyrir að mót yngri flokka hefjist um 5. júní.

Almennt um leikjafyrirkomulag

Í öllum tilfellum þarf að lengja mótin inn í haustið og ræðst það af því hve margir leikir verða óleiknir þegar mótin fara af stað.  Samt sem áður er ljóst að leika þarf þéttar.  Ferðalög milli landshluta í miðri viku geta því aukist frá því sem áætlað var.

Eins og segir hér að ofan þá miðast ofangreint upphaf móta við að staðan í þjóðfélaginu verði þannig að Almannavarnir geti heimilað leikjum að fara fram. KSÍ hvetur því alla til að fara varlega og hlýða þeim fyrirmælum sem Almannavarnir hafa gefið út.

Mynd með grein: Hafliði Breiðfjörð, Fótbolti.net