• þri. 05. maí 2020
  • Stjórn
  • Fundargerðir

2236. fundur stjórnar KSÍ - 30. apríl 2020

2236. fundur stjórnar Knattspyrnusambands Íslands var haldinn fimmtudaginn 30. apríl 2020 á skrifstofu KSÍ á Laugardalsvelli og hófst kl. 15:00. Fundurinn fór fram með fjarfundarbúnaði.


Mættir: Guðni Bergsson formaður, Gísli Gíslason varaformaður, Borghildur Sigurðardóttir varaformaður, Ásgeir Ásgeirsson, Haraldur Haraldsson, Ingi Sigurðsson, Magnús Gylfason, Ragnhildur Skúladóttir, Valgeir Sigurðsson og Þorsteinn Gunnarsson. 

Mættur varamaður í stjórn: Þóroddur Hjaltalín.

Mættir fulltrúar landshluta: Björn Friðþjófsson (Norðurland) og Bjarni Ólafur Birkisson (Austurland)

Mættur framkvæmdastjóri: Klara Bjartmarz, sem ritaði fundargerð.


Þetta var gert:

1. Fundargerð síðasta fundar

- Fundargerð síðasta fundar var þegar samþykkt á rafrænan hátt á milli funda af öllum stjórnarmönnum sambandsins.

2. Fundargerðir nefnda/starfshópa lagðar fram til kynningar.

- Mótanefnd 24. apríl 2020.

3. Covid-19

- Guðni Bergsson formaður fór yfir aðgerðir stjórnvalda og þau úrræði sem standa aðildarfélögum mögulega til boða.

- Fyrr í dag fundaði ÍSÍ með sérsamböndum og kynnti úthlutun á framlagi ríkisins til íþróttamála. Staðfest er að 300 milljónir fara til rúmlega 200 félaga í almennum aðgerðum. 150 milljónir fara í sértækar aðgerðir skv. skilgreindu umsóknarferli.

- Borghildur Sigurðardóttir formaður fjárhags- og eftirlitsnefndar greindi frá fundi nefndarinnar 29. apríl þar sem m.a. var fjallað um erindi ÍTF sem lagt var fyrir síðasta stjórnarfund. Greina þarf stöðuna betur og uppfæra fjárhagsáætlun 2020 í nokkrum mismunandi útgáfum þar sem tekið er tillit til mögulegra landsleikja haustsins en ljóst er að fjöldi landsleikja í haust getur haft veruleg áhrif á rekstur sambandsins.

- Klara Bjartmarz framkvæmdastjóri fór yfir UEFA og FIFA styrki og hvernig þeim fjármunum hefur verið ráðstafað til næstu ára. Misskilnings hefur gætt undanfarna daga varðandi þessar greiðslur en það er skýrt að á þessum tímapunkti hefur ekkert viðbótarfjármagn borist frá UEFA/FIFA.

- Valgeir Sigurðsson formaður mótanefndar fór yfir mótamálin. Unnið hefur verið að því að raða niður mótum í meistara- og yngri flokkum. Fjölmargir fundir hjá starfshópum mótanefndar hafa farið fram síðustu dag og verða áfram á næstunni. Þá var fundað með fulltrúum liða í Pepsi Max deild kvenna í vikunni. Enn eru nokkrar áskoranir við niðurröðun en stefnt að því að birta öll mót í næstu viku. Mótanefnd leggur til við stjórn KSÍ að keppni varaliða sem samþykkt var til reynslu árið 2020 verði frestað um ár. Stjórn samþykkti tillögu mótanefndar um að fresta keppni varaliða um eitt ár.

4. Önnur mál

- Guðni Bergsson formaður KSÍ greindi frá því að Reykjavíkurborg hafi hafnað ósk KSÍ um fjárhagslega þátttöku í kostnaði við fyrirhugaðan umspilsleik í mars 2020.

- Guðni Bergsson formaður KSÍ greindi frá því að Reykjavíkurborg hefur skipað starfshóp til að endurskoða samning um rekstur Laugardalsvallar.

- Guðni Bergsson formaður KSÍ fór yfir nýjustu fréttir af þjóðarleikvangi. Framundan er greiningarvinna á sviðsmyndum um nýjan þjóðarleikvang.

- ÍSÍ hefur staðfest breytingar á lögum KSÍ sem samþykktar voru á síðasta ársþingi.

- Klara Bjartmarz framkvæmdastjóri kynnti helstu verkefni samskiptadeildar:

  • Áfram Ísland verkefnið á samfélagsmiðlum KSÍ hófst upp úr miðjum mars og var ætlað að hvetja iðkendur (unga og aldna) til að halda áfram að æfa fótbolta og hreyfa sig þrátt fyrir þær takmarkanir sem voru og eru í gildi. Birt var eitt myndband á hverjum degi á samfélagsmiðlum KSÍ. Þessu verkefni lýkur um leið og æfingar yngri iðkenda geta hafist hjá aðildarfélögum. Unnin hafa verið rúmlega 40 myndbönd.
  • Samferða með KSÍ verkefnið hófst í byrjun apríl og fór vel af stað. Tilgangurinn með verkefninu er að vekja athygli á góðgerðarsamtökunum Samferða og efla þeirra starf, og jafnframt vekja athygli á góðgerðarsamtökum almennt og þeirra mikilvægi í okkar samfélagi. Unnið var myndband sem birt verður reglulega á samfélagsmiðlum KSÍ. Önnur verkefni tengd Samferða með KSÍ eru einnig fyrirhuguð.
  • Litblinda í fótbolta fór af stað í lok apríl og byrjaði mjög vel. Markmiðið er að vekja athygli á stöðu litblindra þátttakenda í fótbolta og því hvaða tiltölulega einföldu skref er hægt að taka til að gjörbreyta þeirra upplifun af fótbolta. Unnið var myndband sem birt verður reglulega á samfélagsmiðlum KSÍ. Önnur verkefni tengd Litblindu í fótbolta eru einnig fyrirhuguð.
  • Framkvæmd leikja vegna Covid-19. Verið er að vinna pakka með tilmælum og leiðbeiningum til félaganna, varðandi þau atriði sem þarf að taka tillit til við framkvæmd leikja í meistaraflokki vegna Covid-19.
  • Allar fréttir og greinar sem KSÍ hefur birt varðandi Covid-19 (eða tengjast því ástandi með einhverjum hætti) eru (og hafa verið) aðgengilegar á sama stað í gegnum hnapp sem er efst á ksi.is.

- Klara Bjartmarz framkvæmdastjóri staðfesti að umsóknir frá 13 aðildarfélögum hafa borist í mannvirkjasjóð 2020 og búist er við fleiri umsóknum áður en umsóknarfrestur rennur út.

- Rætt um samþykkt síðasta ársþings um skipan starfshóps til að meta mögulega fjölgun liða í Pepsi Max deild karla. Verður skoðað í samhengi við skipan nefnda.

Næsti stjórnarfundur verður fimmtudaginn 7. maí kl. 16:00.

Fleira var ekki á dagskrá og var fundi slitið kl. 16:45.