• mán. 10. ágú. 2020
  • COVID-19
  • Mótamál

Til skoðunar að hefja leik að nýju - Drög að reglum

Eins og fram kom á upplýsingafundi Almannavarna í dag er nú til skoðunar að gefin verði heimild til að hefja leik í knattspyrnu að nýju. KSÍ hefur nú þegar hafið undirbúning að því að hægt verði að hefja keppni aftur skv. áætlun föstudaginn 14. ágúst. Það er þó áréttað að enn sem komið er hefur sóttvarnarlæknir ekki lagt fram minnisblað þess efnis og því síður hefur það verið staðfest af heilbrigðisráðherra. Minnt er á að núverandi takmarkanir á leikjum og æfingum gilda til og með 13. ágúst. Mótanefnd KSÍ fundar síðar í dag þar sem farið verður yfir framhaldið.

KSÍ hefur undanfarna viku unnið ítarlegar reglur um framkvæmd knattspyrnuleikja og æfinga með tilliti til sóttvarnaraðgerða. Reglurnar er m.a. byggðar á almennum sóttvarnarkröfum heilbrigðisyfirvalda á Íslandi en styðjast einnig við sambærileg gögn m.a. frá Þýskalandi, Danmörku og UEFA.

Drög að umræddum reglum KSÍ eru lagðar hér fram til kynningar en ítrekað að enn gætu einstök atriði í reglunum átt eftir að taka einhverjum breytingum og nauðsynlegt verði að skerpa á einstökum atriðum. Það er hins vegar mikilvægt að aðildarfélög kynni sér sem allra fyrst þessi drög og hefji undirbúning að innleiðingu nú þegar

Í samskiptum við heilbrigðisyfirvöld undanfarna viku hafa þessar reglur verið kynntar og eru nú forsenda þess að til skoðunar er að hefja leik að nýju. Það er því mikilvægt að allir þátttakendur leiksins kynni sér reglurnar og að eftir þeim sé farið. Næstu daga er stefnt að því að reglurnar verði staðfestar í stjórn KSÍ og kynntar aðildarfélögum og öðrum hagsmunaaðilum í framhaldinu.

Allir hagsmunaaðilar; forráðamenn félaga, leikmenn, allir starfsmenn félaga/mannvirkja, dómarar, fjölmiðlar og allt áhugafólk um knattspyrnu þurfa nú að snúa bökum saman og sýna að við erum traustsins verð þegar kallið kemur. Með sameiginlegu átaki allra hagsmunaaðila getum við tryggt að hægt sé að stunda knattspyrnu áfram þó að takmarkanir séu miklar.

Drög að reglum KSÍ