• lau. 29. ágú. 2020
  • COVID-19
  • Mótamál

Áhorfendur heimilaðir á íþróttaviðburðum

Sóttvarnaryfirvöld hafa veitt heimild fyrir áhorfendum á íþróttaviðburðum með ákveðnum skilyrðum. Skilyrðin eru að 2 metra reglan gildi milli einstaklinga sem ekki eru í nánum tengslum og að ekki séu nema 100 manns að hámarki í stúku/stæði.  Heimildin hefur þegar tekið gildi, í samræmi við auglýsingu heilbrigðisyfirvalda og tilkynningu ÍSÍ. Unnið er að viðeigandi uppfærslu á reglum KSÍ um sóttvarnir og verða þær birtar og sendar aðildarfélögum.  

Frétt af vef ÍSÍ (birt föstudagskvöldið 28. ágúst)

Í dag (föstudag) tók gildi auglýsing um takmörkun á samkomum vegna farsóttar sem heilbrigðisráðuneytið birti 25. ágúst sl. Auglýsingin gildir til 10. september kl. 23:59. Markmið breytinganna sem nú taka gildi er sem fyrr að hægja eins og unnt er á útbreiðslu COVID-19. Sérsamböndum ÍSÍ ber að setja reglur um æfingar og keppni í sinni grein, með samþykki sóttvarnaryfirvalda, þar sem skilgreint er hvernig iðkun íþróttarinnar geti farið fram með þeim takmörkunum sem gilda. Með nýrri auglýsingu er ekki breyting á ákvæðum er eiga við skilyrði fyrir æfingum og keppni. Iðkendur íþrótta eru undanþegnir 2 metra fjarlægðarreglu á æfingum og í keppni. Á það eingöngu við um keppnis/æfingasvæðið sjálft. 

Stærsta breytingin sem fylgir nýjum reglum er að sóttvarnaryfirvöld hafa veitt heimild fyrir áhorfendum á íþróttaviðburðum með ákveðnum skilyrðum. Skilyrðin eru að 2 metra reglan gildi milli einstaklinga sem ekki eru í nánum tengslum og að ekki séu nema 100 manns að hámarki í stúku/stæði. Mest er hægt að fá leyfi fyrir tveimur stúkum/stæðum við hvern leikvang séu þau aðskilin og enginn samgangur á milli þeirra.

Sem fyrr eiga ákvæði um fjölda- og nálægðartakmarkanir eingöngu við um fullorðna, þ.e.a.s. þau eiga ekki við um börn fædd árið 2005 og síðar.

Eins og fram kemur í auglýsingu ráðherra er rík áhersla lögð á einstaklingsbundnar sóttvarnir og almennar smitvarnir með tíðum og reglubundnum þrifum þar sem fólk kemur saman.

ÍSÍ hvetur íþróttahreyfinguna til að fara að fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda og að viðhafa allar nauðsynlegar sóttvarnir. Verum ábyrg! 

Auglýsinguna og minnisblað sóttvarnarlæknis er í heild sinni að finna hér fyrir neðan:

Auglýsing um takmörkun á samkomum vegna farstóttar

Minnisblað sóttvarnarlæknis til ráðherra, dags. 21. ágúst


Frá ÍSÍ: 

Til samræmis við 5. gr auglýsingar heilbrigðisráðherra dags. 25. ágúst 2020 og samþykki sóttvarnaryfirvalda er heimilt að hafa áhorfendur á íþróttaviðburðum með eftirfarandi skilyrðum:

  • Áhorfendur eru leyfðir að sem nemur þriðjungi af heildarfjölda sæta/stæða en þó aldrei fleiri en 100 (eða það hámark sem fram kemur í auglýsingu ráðherra hverju sinni).
  • Litið verði á áhorfendasvæði/stúku sem eitt rými (ekki verði því unnt að skipta svæðinu/stúku í fleiri rými eða hólf).
  • Ef tvær aðskildar stúkur/stæði eru til staðar sitt hvorum megin við völlinn getur hvor þeirra talist sem áhorfendarými og geti því tekið 100 manns hvor að því tilskildu að áhorfendum í stúkunum sé haldið algerlega aðskildum, komi inn/og út um sitt hvorn inngang/útgang og nota sitt hvor salernin og sitt hvora miðasölu, sitt hvora veitingasölu o.s.fr. Ekki er heimilt að hafa fleiri en tvö sóttvarnarsvæði á hverjum leikvangi/húsi.
  • 2 metra reglan gildir milli einstaklinga sem ekki eru í nánum tengslum, sbr. 1. mgr. 4. gr. auglýsingarinnar. Það geti því einnig í minni rýmum takmarkað áhorfendafjölda niður fyrir 100 manns. Að öðru leyti skuli dreifa áhorfendum eins mikið og unnt er. 
  • Aðstandendur viðburða beri ábyrgð á að ekki verði hópamyndun fyrir eða eftir leik inni á svæði sem og beint fyrir utan það.
  • Fjölda- og nálægðartakmörkun auglýsingar ráðherra tekur ekki til barna sem eru fædd árið 2005 og síðar.
  • Með nánum tengslum er fyrst og fremst á átt við nánustu fjölskyldu, þó ekki endilega einungis þá sem deila heimili, nánustu vini og eftir atvikum fáeina nána samstarfsmenn. Þannig sé t.d. ekki unnt að líta svo á að einstaklingur sé í nánum tengslum í þessum skilningi við alla vinnufélaga sína en mögulega einn til fjóra sem viðkomandi starfar mest með eða er í mesta návígi við. Þetta getur t.d. átt við um sessunauta á skrifstofu eða þá sem ferðast saman í bíl við vinnu sína, s.s. lögreglumenn. Í þessu sambandi er mikilvægt að alltaf sé um sömu nánu samstarfsmennina að ræða. Mikilvægt er að alltaf sé um sömu nánu aðila að ræða en að það breytist ekki dag frá degi.
  • Hver einstaklingur þarf að huga að og bera ábyrgð á eigin 2 metra nálægðartakmörkun eins og öðrum einstaklingsbundnum sýkingavörnum.

Mynd með grein:  Hafliði Breiðfjörð, Fótbolti.net