• þri. 08. sep. 2020
  • Mótamál
  • COVID-19

Hólfaskipting leikvangs heimil að uppfylltum skilyrðum

Breytingar hafa verið gerðar á reglum KSÍ um sóttvarnir vegna Covid-19 annars vegar og reglugerð KSÍ um knattspyrnumót hins vegar, og hefur aðildarfélögum verið tilkynnt um breytingarnar með dreifibréfi nr. 15/2020.

Breyttar sóttvarnarreglur KSÍ taka mið af þeim breytingum sem orðið hafa á auglýsingu/reglugerð heilbrigðisráðherra um takmörkun á samkomum vegna farsóttar sem og minnisblaði sóttvarnarlæknis varðandi takmarkanir á samkomum innanlands. 

Breytingar fela m.a. í sér að nú er heimilt að skipta leikvangi í fleiri en eitt hólf m.v. að skilyrði séu uppfyllt. Skilyrðin eru m.a. að 1 metra reglan gildi milli einstaklinga sem ekki eru í nánum tengslum og að ekki séu nema 200 manns að hámarki í hverju rými/hólfi. Sem fyrr eiga ákvæði um fjölda- og nálægðartakmarkanir eingöngu við um fullorðna, þ.e.a.s. þau eiga ekki við um börn fædd árið 2005 og síðar.

Breytingar á reglugerð KSÍ um knattspyrnumót miða að því að leikir í undanúrslitum í bikarkeppni KSÍ (Mjólkurbikar karla og kvenna) verði leiknir á hlutlausum völlum. Þá hefur verið bætt við bráðabirgðaákvæði í reglugerðina sem kveður svo á um að bikarkeppni KSÍ (Mjólkurbikar karla og kvenna) árið 2020 skuli vera lokið eigi síðar en í nóvembermánuði.

Aðildarfélög hafa verið hvött til að kynna sér efni dreifibréfsins gaumgæfilega.

Skoða dreifibréf