• mið. 21. okt. 2020
  • Landslið
  • U19 karla
  • COVID-19

Milliriðlum og úrslitakeppni EM U19 karla aflýst

Knattspyrnusamband Evrópu (UEFA) hefur ákveðið, vegna stöðu heimsafaraldurs Covid-19, að aflýsa milliriðlum og úrslitakeppni EM U19 karla. Áður hafði milliriðlum verið frestað fram í nóvember, en nú hefur verið tekin ákvörðun um að blása mótið af.  Úrslitakeppnin átti að fara fram á Norður-Írlandi í mars 2021.

U19 landslið Íslands hafði tryggt sér sæti í milliriðlunum með því að hafna í 2. sæti í undankeppninni, í riðli sem leikinn var í Belgíu í nóvember 2019, og var í milliriðli með Noregi, Ítalíu og Slóveníu.  Sá milliriðill fer ekki fram, eins og segir hér að framan.

Í ljósi þess að árangur í EM U19 karla ákvarðar hvaða fimm Evrópuþjóðir taka þátt í úrslitakeppni HM U20 landsliða karla, sem áætlað er að fari fram í Indónesíu í maí 2021, hefur UEFA ákveðið að fimm efstu liðin í styrkleikaflokkun undankeppninnar taki sætin.  Þessar þjóðir eru England, Frakkland, Ítalía, Holland og Portúgal.