• sun. 15. nóv. 2020
  • Landslið
  • A karla

Tap gegn Dönum á Parken

Ísland tapaði 1-2 gegn Danmörku í Þjóðadeild UEFA, en leikurinn fór fram á Parken í Kaupmannahöfn.

Leikurinn var jafn til að byrja með, en það voru Danir sem skoruðu fyrsta mark leiksins af vítapunktinum eftir 12 mínútna leik. Þar var að verki Christian Eriksen. Nokkrum mínútum síðar fékk Eriksen boltann inn í teig, tók skotið en Hólmar Eyjólfsson náði að komast fyrir boltann. Næsta korterið voru Danir meira með boltann, en þeim tókst ekki að finna neinar glufur á vörn Íslands. 

Fimm mínútum fyrir lok fyrri hálfleiks fengu Danir frábært færi eftir hornspyrnu Eriksen, en Yussef Poulsen skallaði boltann hátt yfir úr frábærri stöðu. Staðan því 1-0 fyrir Dönum þegar flautað var til hálfleiks.

Ísland gerði sína fyrstu skiptingu í hálfleik. Guðlaugur Victor Pálsson kom inn á fyrir Birki Bjarnason. Eriksen átti fyrsta færi síðari hálfleiks, en skot hans var varið frábærlega af Rúnari Alex Rúnarssyni. Eftir góða byrjun Dana komust strákarnir meira og meira inn í leikinn og náðu oft á tíðum upp góði spili sín á milli, en danska vörnin var þétt og hleypti þeim ekki í gegnum sig.

Þegar 20 mínútur voru eftir af leiknum komu þeir Viðar Örn Kjartansson og Aron Einar Gunnarsson inn á fyrir Jón Daða Böðvarsson og Arnór Sigurðsson. Stuttu síðar kom Alfreð Finnbogason inn á fyrir Albert Guðmundsson.

Guðlaugur Victor Pálsson var ekki langt frá því að jafna leikinn eftir langt innkast Arons Einars. Fredrik Ronnow varði skalla hans frábærlega. Ísland lék mjög vel næstu mínútur og þegar fimm mínútur voru eftir af venjulegum leiktíma setti Ari Freyr Skúlason boltann í gegn á Viðar Örn sem var ekki í vandræðum með að setja boltann í netið. Frábær afgreiðsla hjá Viðari Erni!

Það voru hins vegar Danir sem náðu að skora sigurmark í lok leiks og aftur var það Eriksen sem skoraði af vítapunktinum og tryggði Dönum 2-1 sigur.

Ísland mætir Englandi á miðvikudaginn og fer sá leikur fram á Wembley.

Mynd:  fodboldbilleder.dk