• mán. 01. feb. 2021
  • Fræðsla
  • Landslið
  • Mótamál

Heildarendurskoðun á knattspyrnu kvenna

HEILDARENDURSKOÐUN Á KNATTSPYRNU KVENNA - SKÝRSLA STARFSHÓPS

Á ársþingi 2019 var lögð fram tillaga þess efnis að stjórn KSÍ færi í heildarendurskoðun á knattspyrnu kvenna þar sem ýmsar ályktanir um breytingar í málaflokknum rötuðu inn á ársþing en tóku eingöngu til hluta knattspyrnu kvenna. A landsliðsnefnd kvenna var síðar falið af stjórn KSÍ að fara í heildarendurskoðun á knattspyrnu kvenna.

Hér er nú birt skýrsla um verkefnið, greiningu ýmissa þátta, helstu niðurstöður og tillögur sem ætlað er að styðja við eftirfarandi markmið:

  • Að stúlkur fái að vaxa og dafna í fótbolta á eigin forsendum í heilbrigðu umhverfi
  • Að fleiri stúlkur æfi fótbolta
  • Að fá fleiri konur í leiðtogahlutverk í fótboltanum þ.e. í stjórnum og ráðum, sem þjálfara, sjálfboðaliða og dómara
  • Að auka gæði og samkeppnishæfni knattspyrnu kvenna
  • Styrkja stöðu kvenna í hreyfingunni allri

Ákveðið var að skipta verkefninu upp í fjóra efnisflokka og að hver flokkur yrði unninn sjálfstætt í í fjórum mismunandi vinnuhópum.  Um vinnuhópa og efnisflokka:

Aukin þátttaka

Fyrsti vinnuhópurinn tók til skoðunar þá þætti sem snúa að grasrótinni og skoðaði þróun á fjölda iðkenda í knattspyrnu og þá sérstaklega þróun á fjölda kvenkyns iðkenda. Vinnuhópurinn skoðaði einnig hæfi þjálfara sem þjálfa kvennaflokka og hlutfall kvenkyns þjálfara hjá aðildarfélögunum. Þá skoðaði vinnuhópurinn, í samvinnu við fræðsludeild KSÍ, hvað hafði verið gert til að fjölga kvenkyns þjálfurum.

Þróum leikinn

Verkefni þessa hóps var að skoða stöðuna á vellinum. Eru verkefnin nægjanlega krefjandi, er fyrirkomulagið eins og það er í dag á sem bestan hátt til að þróa áfram knattspyrnu kvenna á Íslandi og hvernig erum við að standa okkur í afrekshlutanum? Stöndum við í stað eða erum við að fylgja þeirri framþróun sem verið hefur víða um heim?

Styrkjum stjórnun

Þessi liður endurskoðunarinnar snýr að því að skoða hvernig landslagið er í stjórnarháttum í knattspyrnuhreyfingunni. Skoðað var hvort merkja mætti aukningu í þátttöku kvenna í stjórnum og hvað hægt væri að gera til að breyta þessu landslagi.

Breytum ímyndinni – aukum sýnileika

Þessi vinnuhópur skoðaði ytri áhrif knattspyrnu kvenna. Skoðað var hvernig umfjöllun í fjölmiðlum er háttað og hvort væru einhverjar venjur í umfjöllun sem halla á kvenkynið. Vinnuhópurinn átti einnig að taka til skoðunar hvernig hægt væri að auka aðsókn á leiki og hvernig mögulega væri hægt að markaðssetja þessa afurð svo að aðildarfélögin gætu haft meiri tekjur.

Smellið hér til að skoða skýrslu starfshóps um heildarendurskoðun á knattspyrnu kvenna


Úr inngangi skýrslunnar:

Eftir að hafa kynnt sér ítarlega nýja stefnumótun hjá bæði FIFA og UEFA um knattspyrnu kvenna var ákveðið að fara svipaða leið og bæði samböndin höfðu gert, þ.e. að skipta viðfangsefninu upp í fjóra efnisflokka sem fjölluðu um nokkra aðkallandi þætti í viðkomandi málaflokki. Einnig var verkefnið aðeins útvíkkað yfir í konur í knattspyrnu því ljóst er að þátttaka kvenna í knattspyrnuheiminum hefur verið lítil. Nauðsynlegt er að sýnileiki kvenna sé ekki eingöngu á vellinum heldur einnig í stjórnun, ákvarðanatöku og skipulagi.

Ákveðið var að hver efnisflokkur yrði unninn sjálfstætt í í fjórum mismunandi vinnuhópum og þeim gefið frjálsræði hvernig þeir teldu að vinnunni yrði best hagað. Að minnsta kosti einn meðlimur úr A landsliðsnefnd kvenna sat í stýrihóp hvers efnisflokks til að halda tengingu nefndarinnar við verkefnið. Þeir fjórir flokkar sem til skoðunar voru; grasrótin og hennar verkefni, staðan á vellinum, þátttaka kvenna í ákvarðanatöku og að lokum ytri áhugi og ásýnd. Þessir efnisflokkar fengu vinnuheitin:

  • Aukin þátttaka
  • Þróum leikinn
  • Fjölgum konum
  • Breytum ímyndinni, aukum sýnileika

Vinnuhóparnir fóru mismunandi leiðir enda mismikið til af efni og upplýsingum. Allir vinnuhóparnir höfðu það að markmiði að fara í samráð við knattspyrnuhreyfinguna því aðkoma sem flestra er hvati til umræðna og skoðanaskipta. Greint verður nánar frá vinnu hvers hóps undir sér köflum í skýrslunni. Vinnuferlið í þessu verkefni hefur verið langt en ástæða þótti til að kafa djúpt í málefnið. Einnig hafði blessaða COVID-19 veiran áhrif á vinnuna eins og allt annað í knattspyrnuhreyfingunni. Hins vegar hafa mörg verkefni sem hér voru til skoðunar þegar komið til framkvæmda í millitíðinni, eða þegar hafa verið teknar ákvarðanir um framkvæmd þeirra sem er virkilega jákvætt.

Þegar á heildina er litið má áætla að um 200 manns úr knattspyrnuhreyfingunni hafi komið að þessari endurskoðun knattspyrnu kvenna og viljum við þakka öllum þeim sem lögðu hönd á plóginn því verkefnið er gríðarlega umfangsmikið.

Skýrslan snertir flesta þætti sem snúa að knattspyrnu kvenna á Íslandi. Henni er ekki ætlað að vera tæmandi en vonandi fyrsta skrefið í átt að því að lyfta knattspyrnu kvenna á hærri stall. Meðfylgjandi eru tillögur að úrbótum en nú þegar hafa nokkrir þættir verið teknir til endurskoðunar og aðrir komist í framkvæmd. Lagt er til hvar ábyrgðin liggur að koma viðkomandi þáttum í framkvæmd sem og tillögur að tímasetningum. Það er svo hlutverk stjórnar KSÍ að taka afstöðu til tillagnanna og samþykkja, koma þeim í framkvæmd og úthluta fjármagni til þess að það sé mögulegt.

Jafnframt þarf að huga að ýmsum fleiri þáttum kvennaknattspyrnunnar. Þar má nefna málefni eins og réttindi kvenna í knattspyrnu, sem oft á tíðum er ábótavant, sem og jöfnun launa. Jafnframt hvetur starfshópurinn KSÍ til að nýta sér styrk frá UEFA til að fara í stefnumótun í knattspyrnu kvenna og að setja í gang starfshóp um endurskoðun mótafyrirkomulags í meistaraflokki sem fyrst. Það er okkar von að þessi úttekt verði til þess að efla knattspyrnu kvenna hér á landi, að hér séu stigin næstu skref og að félög geti nýtt sér tillögurnar til að bæta starfið í sínum félögum og eflt knattspyrnu kvenna í landinu. Við viljum nota tækifærið til að hvetja allar konur til að stíga fram og vera virkir þátttakendur í hreyfingunni okkar. Saman stöndum við miklu sterkari.

A landsliðsnefnd kvenna