• fim. 06. jan. 2022
  • Leyfiskerfi
  • Lög og reglugerðir

Haukur Hinriksson í starfsnám hjá FIFA

Haukur Hinriksson, yfirlögfræðingur á skrifstofu KSÍ, er í námsleyfi til loka maí 2022. Haukur sækir nám í Alþjóðlegri samningagerð og gerðardómsrétti (International contracts and arbitration) við Fribourg-háskóla í Sviss. Um er að ræða nám til LLM gráðu í lögfræði.

Sem hluta af LLM gráðunni bauðst Hauki að finna starfsnám sem metið yrði sem hluti af náminu. Skilyrði var að starfsnámið væri í Sviss og þyrfti vera tengt náminu (alþjóða samningar og gerðardómsréttur). Haukur hafði samband við FIFA á haustönn með það fyrir augum að sækja um starfsnám í lögfræðideild FIFA (Legal & Compliance division), fékk jákvæð viðbrögð og gekk frá þríhliðasamningi við FIFA og Fribourg-háskóla í nóvember sl.

Haukur hefur nú verið ráðinn til sex vikna í málaferladeild FIFA (FIFA Litigation Division). Deildin er hliðardeild við lögfræðideild FIFA og sér um öll málaferli FIFA, þá allra helst málaferli FIFA hjá Alþjóða Íþróttadómstólnum í Lausanne í Sviss (Court of Arbitration for sport - CAS). Þar sér deildin um að taka til varna þegar niðurstöðum úrskurðaraðila FIFA hefur verið áfrýjað til Alþjóða Íþróttadómstólsins CAS, t.d. ákvörðunum aganefndar FIFA (FIFA Disciplinary Committee) áfrýjunarnefndar FIFA (FIFA Appeals Body), siðanefndar FIFA (FIFA Ethics Committee) og ákvörðunum knattspyrnudómstóls FIFA (FIFA Football Tribunal).

Ráðningartími starfsnáms Hauks er frá byrjun janúar fram í miðjan febrúar.