• sun. 23. jan. 2022

2272. fundur stjórnar KSÍ - 13. janúar 2022

2272. fundur stjórnar Knattspyrnusambands Íslands var haldinn fimmtudaginn 13. janúar 2022 og hófst kl. 16:00. Fundurinn fór fram á Teams.


Mættir stjórnarmenn: Vanda Sigurgeirsdóttir formaður, Borghildur Sigurðardóttir varaformaður, Valgeir Sigurðsson varaformaður, Ásgrímur Helgi Einarsson, Guðlaug Helga Sigurðardóttir (tók sæti á fundinum kl. 16:20), Helga Helgadóttir, Ingi Sigurðsson, Orri V. Hlöðversson, Sigfús Ásgeir Kárason og Unnar Stefán Sigurðsson.

Mættir varamenn í stjórn: Kolbeinn Kristinsson (vék af fundi 17:55), Margrét Ákadóttir (vék af fundi kl. 20:15) og Þóroddur Hjaltalín.

Fjarverandi:

Mættur framkvæmdastjóri: Klara Bjartmarz sem ritaði fundargerð.

Þá tók Stefán Sveinn Gunnarsson deildarstjóri markaðsdeildar KSÍ sæti á fundinum undir dagskrárlið 6b.

Fundargögn:

  • Dagskrá stjórnarfundar 2272
  • Fundargerð stjórnarfundar 2271
  • Kostnaðarmat á tillögum starfshópa um breytingar á mótafyrirkomulagi
  • Minnisblað mótanefndar um tillögur starfshópa
  • Dagskrá knattspyrnuþings
  • Yfirlit yfir gjaldskrá KSÍ
  • Minnisblað frá kjörnefnd
  • Réttindasamningar
  • Erindi frá Leikmannasamtökunum Íslands

1. Fresta þurfti dagskrárliðnum „fundargerð síðasta fundar var lögð fram og undirrituð“ þar sem fundurinn var rafrænn.

2. Fundargerðir nefnda voru lagðar fram til kynningar og fluttar fréttir af vettvangi ÍTF.

  • a. Fundargerð mótanefndar 30. nóvember 2021
  • b. Fundargerð mannvirkjanefndar 13. desember 2021
  • c. Fundargerð dómaranefndar 15. desember 2021
  • d. Fundargerð fræðslunefnd 5. janúar 2022
  • e. Fundargerð mótanefndar 6. janúar 2022
  • f. Orri Hlöðversson formaður ÍTF flutti stjórn KSÍ fréttir af vettvangi ÍTF.

3. Mótamál.

a. Valgeir Sigurðsson formaður mótanefndar gaf stjórn yfirlit yfir vinnu við niðurröðun komandi knattspyrnutímabils.

b. Valgeir Sigurðsson formaður mótanefndar lagði fram minnisblað frá mótanefnd um tillögur starfshópa í mótamálum. Mótanefnd KSÍ leggur til að:

  • Stjórn KSÍ flytji tillögu um breytingar á fyrirkomulagi efstu deildar kvenna sem taki gildi keppnistímabilið 2023 í samræmi við niðurstöðu starfshóps. Stjórn KSÍ samþykkti tillögu mótanefndar og samþykkti jafnframt að fela laga- og leikreglnanefnd að undirbúa tillögu stjórnar.
  • Stjórn KSÍ flytji tillögu um breytingar á fyrirkomulagi Lengjudeildar karla sem taki gildi keppnistímabilið 2023 í samræmi við niðurstöðu starfshóps. Stjórn KSÍ samþykkti tillögu mótanefndar og samþykkti jafnframt að fela laga- og leikreglnanefnd að undirbúa tillögu stjórnar.
  • Stjórn KSÍ flytji tillögu um breytingar á fyrirkomulagi 4. deildar karla, nýja keppni 5. deildar karla og nýja Utandeild KSÍ sem taki gildi keppnistímabilið 2023 í samræmi við niðurstöðu starfshóps. Stjórn KSÍ samþykkti tillögu mótanefndar og samþykkti jafnframt að fela laga- og leikreglnanefnd að undirbúa tillögu stjórnar.
  • Á ársþingi KSÍ 2023 verði flutt tillaga um nýja bikarkeppni neðri deilda karla sem taki gildi keppnistímabilið 2024. Stjórn KSÍ samþykkti tillögu mótanefndar um að taka upp nýja bikarkeppni neðri deilda. Stjórn KSÍ samþykkti að leggja tillöguna fyrir komandi ársþing (febrúar 2022) með gildistöku keppnistímabilið 2023. Laga- og leikreglnanefnd var falið að undirbúa tillögu stjórnar.

Aðrar tillögur og umsagnir starfshópa um mótamál komu ekki til afgreiðslu stjórnar.

c. Þóroddur Hjaltalín formaður dómaranefndar ræddi um viðurkenningar til dómara og eftirlitsmanna fyrir þeirra framlag til knattspyrnunnar.

4. Lög og reglugerðir

a. Stjórn KSÍ samþykkti að fela Laga- og leikreglnanefnd að uppfæra reglugerð KSÍ um heimsfaraldur Covid-19 fyrir komandi tímabil.

b. Rætt um leyfismál. Nýrri útgáfu af leyfisreglugerð KSÍ, með samþykktum breytingum 12. nóvember 2021, var skilað til UEFA innan tilsettra tímamarka, eða fyrir 31. desember sl. KSÍ ber skylda til að upplýsa UEFA um allar þær breytingar sem verða á leyfisreglugerð KSÍ á ári hverju og skilar KSÍ því inn til UEFA uppfærðri leyfisreglugerð með enskri þýðingu í lok hvers árs ef breytingar eiga sér stað. Ensk þýðing á reglugerðinni var unnin og samþykkt af laga- og leikreglnanefnd KSÍ.

5. Ársþing KSÍ.

a. Rætt um dagskrá þingsins sem verður í samræmi við lög KSÍ. Stefnt er að því að málþing fari fram þann 25. febrúar. Stjórnarfólk var beðið um að senda formanni eða framkvæmdastjóra tillögur að dagskrá málþings. Einnig verður kallað eftir tillögum að dagskrárefnum frá aðildarfélögum. Rætt um sóttvarnarreglur og áhrif þeirra á ársþing.

b. Klara Bjartmarz framkvæmdastjóri KSÍ upplýsti stjórn um stöðuna á vinnu við fjárhagsuppgjör 2021 og gerð fjárhagsáætlunar 2022. Lögð var fram tillaga um breytingar á ýmsum þáttum í gjaldskrá KSÍ. Stjórn KSÍ samþykkti breytingarnar og fól laga- og leikreglnanefnd að uppfæra gjaldskrá KSÍ fyrir þá þjónustu sem bundin er í reglugerð.

c. Rætt um skýrslur nefnda og skýrslu stjórnar sem verða með hefðbundnu sniði.

d. Stjórn fól formanni og framkvæmdastjóra að gera tillögu til stjórnar um embættismenn þingsins.

e. Rætt um þær viðurkenningar sem veittar eru á ársþingi.

f. Lagt fram til kynningar minnisblað frá kjörnefnd um fyrirkomulag kosninga á ársþingi. Stjórn samþykkti að senda út hvatningu til aðildarfélaga um að huga að kynjaskiptingu við vali á þingfulltrúum á ársþing KSÍ.

6. Staða verkefna

a. Vanda Sigurgeirsdóttir formaður ræddi um landsliðsmál.

Stefán Sveinn Gunnarsson sviðsstjóri markaðssviðs KSÍ tók sæti á fundinum.

b. Rætt um réttindasamninga, bæði gagnasamninga og streymissamninga. Um er að ræða þríhliða samninga ÍTF, KSÍ og erlends aðila. Stjórn KSÍ samþykkti samningana. KSÍ og ÍTF hafa ennfremur gengið frá samkomulagi sín á milli um svokallað media hub og reksturinn á því. Kynntur var samningur KSÍ vegna bikarkeppni KSÍ og A landsliðs kvenna.

Stefán yfirgaf fundinn.

7. Skýrsla úttektarnefndar ÍSÍ

a. Vanda Sigurgeirsdóttir formaður KSÍ greindi stjórn frá viðræðum við ÍSÍ um skýrsluna.

b. Vanda Sigurgeirsdóttir formaður KSÍ lagði fram þá tillögu að skipa þriggja manna starfshóp sem rýni þá þætti skýrslunnar sem snúa að innra skipulagi sambandsins. Vanda lagði fram þá tillögu að skipa Margréti Ákadóttur, Orra Hlöðversson og Valgeir Sigurðsson í starfshópinn. Stjórn samþykkti tillögu formanns.

8. Mannvirkjamál

a. Dagskrárlið 8 var frestað til næsta fundar.

9. Önnur mál

a. Dagskrárlið 9a, umræði um erindi frá Leikmannasamtökum Íslands var frestað til næsta fundar en formanni og framkvæmdastjóra var falið að undirbúa svar KSÍ.

b. Lagt var fram og samþykkt yfirlit yfir fundi stjórnar fram að ársþingi

  • 25. janúar
  • 10. febrúar
  • 25. febrúar (stór stjórn)


    Næsti fundur verður 25. janúar 2022.

    Fleira var ekki bókað og var fundi slitið kl. 20:26.