• þri. 28. feb. 2023
  • Ársþing

Jóhann Króknes Torfason sæmdur heiðurskrossi KSÍ

Á 77. ársþingi KSÍ sem haldið var á Ísafirði laugardaginn 25. febrúar var Jóhann Króknes Torfason sæmdur heiðurskross KSÍ. 

Heiðurskross, úr gulli í borða með íslensku fánalitunum, er æðsta heiðursmerki KSÍ og veitist hann aðeins undir alveg sérstökum kringumstæðum þeim einstaklingum, sem unnið hafa knattspyrnuíþróttinni ómetanlegt gagn.

Á stjórnarfundi KSÍ þann 9. febrúar síðastliðinn samþykkti stjórn KSÍ að sæma Jóhann Króknes Torfason heiðurskross KSÍ.

Jóhanni Torfasyni er fótbolti í blóð borinn og hann hefur verið virkur þátttakandi í íþróttinni allt sitt líf, allt frá því að vera leikmaður og til þess að vera stjórnarmaður í sínu félagi og nefndar- og stjórnarmaður hjá KSÍ.

Jói Torfa hefur um langt árabil starfað að framgangi íslenskrar knattspyrnu, hefur átt stóran þátt í uppbyggingu knattspyrnustarfs á Ísafirði, verið ötull baráttumaður fyrir knattspyrnuna á landsbyggðinni, og lagt mikið af mörkum á vettvangi KSÍ, sér í lagi þegar kemur að verkefnum yngri landsliða. Jóhann Torfason hefur gert knattspyrnuíþróttinni ómetanlegt gagn.

Þess má geta að Jóhann var einnig sæmdur Heiðurskrossi ÍSÍ sama dag fyrir mikið og óeigingjarnt starf í þágu íþróttahreyfingarinnar á Vestfjörðum, knattspyrnuhreyfingarinnar og ÍSÍ.

Silfurmerki KSÍ veitt á ársþingi

Þau Samúel Sigurjón Samúelsson og Sigrún Sigríður Óttarsdóttir voru sæmd silfurmerki KSÍ á 77. ársþingi sambandsins. Samúel og Sigrún hafa bæði unnið óeigingjarnt starf fyrir knattspyrnuna á Íslandi. Samúel er virkur í starfi Vestra á Ísafirði ásamt því að hafa spilað með BÍ, Bolungarvík og KÍB á sínum ferli. Sigrún, eða Ída eins og hún er kölluð, er mikilvæg í starfi Breiðabliks og Augnabliks. Ída spilaði hátt í 200 leiki með Breiðabliki og einnig spilaði hún 32 A-landsleiki á ferli sínum.

Fimm heiðruð fyrir 100 leikja áfanga

Á ársþinginu voru fimm leikmenn heiðraðir fyrir að hafa spilað 100 landsleiki fyrir Íslands hönd. Það voru þau Aron Einar Gunnarsson, Birkir Bjarnason, Birkir Már Sævarsson, Dagný Brynjarsdóttir og Glódís Perla Viggósdóttir. Birkir Már var sá eini sem átti heimangengt að þessu sinni og fékk hann afhent málverk eftir Tolla við tilefnið.