• fös. 15. sep. 2023

Fallinn félagi – Bjarni Felixson

Góður félagi okkar allra í knattspyrnuhreyfingunni, Bjarni Felixson, er látinn.

Líf Bjarna, sem hefði orðið 87 ára í desember á þessu ári, var alla tíð samofið knattspyrnuíþróttinni. Hann var gallharður KR-ingur, eins og allir vita, lék með KR um árabil og vann fjölmarga Íslands- og bikarmeistaratitla með liðinu, flesta á 7. áratug síðustu aldar. Þá lék Bjarni 6 leiki fyrir A landslið karla á árunum 1962 til 1964.

Bjarni vann sem íþróttafréttamaður í rúma fjóra áratugi og fjallaði um fótboltann af miklum áhuga og ástríðu, en ekki síður af þekkingu og fagmennsku. Lang flest okkar sem lifum og hrærumst í fótboltanum þekkjum vel til starfa Bjarna á þeim vettvangi.

Bjarni fékk silfurmerki KSÍ á fertugsafmæli sínu árið 1976 og gullmerki KSÍ hlaut Bjarni fyrir sín störf í þágu knattspyrnuíþróttarinnar á Íslandi, afhent á 62. ársþingi KSÍ árið 2008. Gullmerki KSÍ veitist aðeins þeim, sem unnið hafa knattspyrnuíþróttinni langvarandi og þýðingarmikil störf. Árið 2004 var Bjarna veittur heiðursskjöldur, sérstök viðurkenning á framlagi hans til umfjöllunar á knattspyrnu.

Við minnumst Bjarna Fel og allra þeirra góðu verka sem hann vann fyrir íslenska knattspyrnu, og ekki síður allra þeirra góðu stunda sem hann gaf okkur sem íþróttafréttamaður og lýsandi kappleikja.

KSÍ minnist fallins félaga með hlýhug og vottar fjölskyldu og aðstandendum samúð.

Takk fyrir allt, Bjarni Fel. Hvíldu í friði.