• þri. 12. des. 2023
  • Leyfiskerfi
  • Fræðsla

Leyfiskerfi KSÍ: Gæðastaðall fyrir félög

Hvað er leyfiskerfi KSÍ? Hvaðan kemur það og hver er tilgangurinn með því?  Hvert er umfangið, hvaða þætti er fjallað um í leyfiskerfi KSÍ og til hvaða félaga nær það?  Hvaða þýðingu hefur það fyrir félög að vera innan leyfiskerfis?

Leyfiskerfi KSÍ gerir félögum kleift að bæta skipulag sitt samkvæmt viðurkenndum lágmarksviðmiðum. Kerfið er í raun gæðastaðall fyrir íslensk knattspyrnufélög, þar sem félögin verða að mæta lágmarkskröfum á 5 sviðum.

  • Knattspyrnulegar forsendur (eins og uppeldi og þjálfun ungra leikmanna).
  • Mannvirkjaforsendur (eins og aðgengi að æfingaaðstöðu og keppnisvelli sem uppfylla viðeigandi kröfur).
  • Starfsfólk og stjórnun (eins og þjálfarar með viðeigandi menntun og starfsfólk með sérfræðiþekkingu á sínum sviðum).
  • Lagalegar forsendur (eins og lagalegur grundvöllur félagsins og sjálfstæði í ákvarðanatöku).
  • Fjárhagslegar forsendur (eins og endurskoðaður ársreikningur og að félag sé ekki í vanskilum við leikmenn, þjálfara og annað starfsfólk).

Leyfiskerfið var tekið upp í efstu deild karla árið 2003. Fyrir keppnistímabilið 2007 var leyfiskerfið síðan útvíkkað, þannig að það náði einnig til næst efstu deildar karla og undirgangast nú tvær efstu deildir Íslandsmóts karla kerfið. Leyfiskerfi var jafnframt tekið upp í efstu deild kvenna fyrir keppnistímabilið 2021 og var það stórt framfaraskref fyrir kvennaknattspyrnu á Íslandi. KSÍ undirgengst reglulega gæðamat leyfiskerfis KSÍ gagnvart leyfisstaðli UEFA.

Félögin sem undirgangast leyfiskerfið sækja um þátttökuleyfi í sínum deildum fyrir hvert keppnistímabil. KSÍ skuldbindur sig til að góð þjónusta og trúnaður gagnvart félögunum sem undirgangast leyfiskerfið verði ávallt í fyrirrúmi. Fannar Helgi Rúnarsson er leyfisstjóri KSÍ og heldur utan um leyfiskerfið og samskiptin við félögin vegna þess: „Við hjá KSÍ hjálpum félögunum með þetta eins og við getum, í fullum trúnaði við félögin og þeirra fulltrúa. Það hefur enn ekki gerst að félag hafi ekki fengið þátttökuleyfi, og vonandi gerist það aldrei, en vissulega gerist það af og til að félög þurfi að sæta viðurlögum, fái aðvaranir og jafnvel sektir.“

Starfsfólk leyfismála hjá KSÍ gerir allt sem í þeirra valdi stendur til að styðja við, veita ráðgjöf og aðstoða félögin í þeirra vinnu gagnvart leyfiskerfinu. Fannar Helgi: „Við þurfum að geta átt hispurslaus og opinská samtöl um stöðu mála við hvert félag, því þannig erum við í sem bestri stöðu til að hjálpa félögunum í þeirra vinnu gagnvart leyfiskerfinu. Þetta eru miklar kröfur, sem gera mikið fyrir félögin og þeirra starf, og við hjálpumst að í þessu.“

Hægt er að lesa allt um leyfiskerfið á vef KSÍ.