• mið. 21. feb. 2024
  • Ársþing
  • Útbreiðsla

Leiknir R. fær viðurkenningu fyrir grasrótarverkefni ársins 2023

Grasrótarverðlaunum KSÍ er skipt upp í þrjá flokka: Grasrótarverkefni ársins, Grasrótarfélag ársins og Grasrótarpersóna ársins. Þetta er í annað sinn sem verðlaunum er þrískipt með þessum hætti.

Mjög ánægjulegt var að sjá hversu margar flottar tilnefningar bárust í öllum þremur flokkunum í ár og greinilegt að grasrótarstarf í fótbolta er í miklum blóma víðs vegar um land. Það var verðugt verkefni að velja úr og margar tilnefningar komu til greina.

Leiknir Reykjavík fær að þessu sinni viðurkenning fyrir grasrótarverkefni ársins 2023. 

Leiknir R. hefur unnið hörðum höndum að því að endurvekja kvennaknattspyrnu í félaginu og fyrstu skrefin voru tekin á liðnu ári með 6. flokki kvenna. Nokkrar kraftmiklar stúlkur hófu æfingar en fljótlega stækkaði hópurinn og á þriðja tug metnaðarfullra stúlkna af ýmsum þjóðernum æfa nú með flokknum, sem teflir fram liði í mótum hjá 6. flokki kvenna og í Reykjavíkurmóti 5. flokks. Þetta er virkilega jákvæð þróun og mikilvægt skref að veita stúlkum á þessu fjölmenna svæði tækifæri til að iðka knattspyrnu með sínu hverfisfélagi.

Á myndinni eru þeir Atli Jónasson og Margeir Ingólfsson frá Leikni Reykjavík ásamt Sóleyju Guðmundsdóttur frá KSÍ