• 06.04.2010 00:00
  • Pistlar

Knattspyrna fyrir alla

Vignir Þormóðsson
Vignir-Thormodsson

Grasrótarknattspyrna hefur alla  tíð leikið stórt hlutverk í knattspyrnuflórunni og er mikilvægur hluti þeirrar staðreyndar að þessi íþrótt sem er okkur svo kær sé svona vinsæl, ekki bara hér á Íslandi, heldur um allan heim.  En hvað er grasrótarknattspyrna?  Það er í sjálfu sér erfitt að skilgreina þetta hugtak en þó má segja að sú knattspyrna sem stunduð sé í grasrótinni sé sú mikilvægasta af öllum þrepum.  Aðeins lítill hluti þeirra sem stunda knattspyrnu ná langt í íþróttinni og leika fyrir meistaraflokkslið sinna  félaga, enn færri verða atvinnumenn í íþróttinni og segja má að atvinnumennskan sé aðeins toppurinn á ísjakanum.  Ef grasrótinni er veitt meiri athygli er líklegra að brottfall minnki og að þátttakendum verði haldið innan knattspyrnuhreyfingarinnar.  Þetta þurfa ekki að vera eingöngu leikmenn, heldur allir þeir aðilar sem hafa áhuga á að starfa áfram fyrir sitt félag með einhverjum hætti.  Skapa þarf vettvang fyrir alla sem vilja taka þátt með einhverjum hætti.  Knattspyrna á að vera íþrótt fyrir alla.

Í grasrótinni geta nefnilega allir tekið þátt í knattspyrnu sem vilja, burtséð frá getu eða hlutverki, aldri, kyni, búsetu eða öðrum þáttum sem taka þyrfti tillit  til.  Sagt er að vökva þurfi ræturnar svo að tréð geti vaxið.  Þetta er ástæðan fyrir því að KSÍ leggur mikla áherslu á að rækta grasrótina í knattspyrnuhreyfingunni.  Gefa ætti öllum áhugasömum aðilum tækifæri á að taka þátt með einhverjum hætti – sem leikmenn, dómarar, þjálfarar, stuðningsmenn, foreldrar, stjórnendur og sjálfboðaliðar, eða með hverjum öðrum hætti sem gagn og gaman er af.  Með því að veita grasrótinni sérstaka athygli vinnur KSÍ að því að byggja upp framtíð íslenskrar knattspyrnu.

Grasrótarknattspyrna getur flokkast sem ýmislegt, t.d. knattspyrna yngri iðkenda eða eldri flokks, knattspyrna fatlaðra, hádegisbolti vinahóps, keppni milli bekkja á skólavellinum, síðdegisleikur hóps af börnum á sparkvelli, knattspyrna blandaðra leikmanna fatlaðra og ófatlaðra, o.s.frv.  Grasrótarknattspyrna getur verið svo margt.  Hugtakið er kannski svolítið óáþreifanlegt, en við vitum hvað er grasrótarknattspyrna þegar við sjáum hana.

Í byrjun árs 2008 var staðfest aðild KSÍ að Grasrótarsáttmála UEFA.  Sáttmálinn er í fimm þrepum (stjörnum) og geta aðildarþjóðirnar bætt við sig stjörnum eftir viðmiðunum frá UEFA. Allar nýjar þjóðir í sáttmálanum byrja með eina stjörnu.  Grasrótarstarf getur verið af margvíslegum toga og eru það aðildarfélög KSÍ sem bera þungann af þessu starfi með margvíslegum hætti í hreyfingunni og eru félög sem sinna grasrótarverkefnum verðlaunuð á ári hverju.  KSÍ hefur lagt mikla áherslu á að vinna samkvæmt Grasrótarsáttmálanum og hefur nú unnið sér inn fjórar stjörnur af fimm, og er KSÍ því eitt af 11 aðildarsamböndum UEFA sem hefur náð þeim áfanga.  Til að hljóta þessar fjórar stjörnur kom KSÍ að ýmsum verkefnum tengdum grasrótinni, s.s. Íslandsleikum Special Olympics í knattspyrnu, knattspyrnuæfingum fyrir fatlaða, æfingum þar sem fatlaðir og ófatlaðir æfðu saman, Sportklúbbi Fylkis fyrir krakka sem að öllu jöfnu stunda ekki íþróttir, átaki til að auka þátttöku stúlkna og kvenna í knattspyrnu, og fleiri verkefnum.  Til að fá stjörnu 5 þarf KSÍ síðan að koma betur að einstökum grasrótarviðburðum óskráðra leikmanna, skólamótum, o.fl.  Undirbúningsvinnan er þegar hafin.

Knattspyrna á vera íþrótt sem er aðgengileg öllum sem hafa áhuga á að taka þátt með einhverjum hætti. Eflum og virkjum grasrótina, það mun skila okkur árangri til framtíðar.

Vignir Már Þormóðsson

Formaður útbreiðslunefndar KSÍ