• 17.01.2011 00:00
  • Pistlar

Þeir flinku spila Futsal

Rúnar Arnarson
KSI_2009_Alm-022

Innanhússknattspyrna af ýmsu tagi hefur verið leikin víðs vegar um heiminn um áratugaskeið.  Vallarstærð, leikmannafjöldi og reglur hafa verið mismunandi milli landa og heimsálfa, en ein tegund innanhússknattspyrnu hefur þó notið stigvaxandi vinsælda og er sú eina sem viðurkennd er af UEFA og FIFA, enda er leikið í Evrópukeppni félagsliða og landsliða í henni, sem og í Heimsmeistarakeppni landsliða.  Þetta er Futsal.  Hér á landi fór fyrst fram Íslandsmót í innanhússknattspyrnu árið 1969 og var það haldið árlega allt þar til Íslandsmótið í Futsal tók við árið 2008. 

Evrópumót landsliða í Futsal var fyrst haldið árið 1996 á Spáni, þar sem heimamenn hömpuðu sigri.  Spánn er einmitt sú þjóð sem hefur unnið Evrópumeistaratitilinn í Futsal oftar en nokkur önnur þjóð, eða í fimm skipti af þeim sjö sem keppt hefur verið um titilinn.  Ítalía og Rússland hafa einnig unnið sigur í mótinu, sem fer fram á tveggja ára fresti.  Síðustu 9 ár hefur verið keppt um Evrópumeistaratitil félagsliða í Futsal og þar hafa Spánverjar einnig reynst hlutskarpastir, enda hafa spænsk lið unnið keppnina fimm sinnum.  Íslensk félagslið hafa tekið þátt í síðustu þremur keppnum.

Heimsmeistarakeppnin í Futsal var fyrst haldin árið 1989, næst 1992 og á fjögurra ára fresti síðan þá.  Brasilíumenn fögnuðu heimsmeistaratitlinum fyrstu þrjú mótin, en Spánverjar rufu einokun þeirra árið 2000, unnu aftur fjórum árum síðar, áður en Brassarnir hirtu titilinn aftur í síðustu heimsmeistarakeppni, sem haldin var 2008.

Eins og sjá má af upptalningunni hér að ofan er nokkuð óumdeilt að tvær sterkustu Futsal þjóðir heims eru Brasilíumenn og Spánverjar.  Í báðum þessum löndum er lögð mikil áhersla á að kenna tæknilega getu í knattspyrnu og þar hefur Futsal leikið stórt hlutverk.  Í Brasilíu leika yngri iðkendur hjá stóru félögunum þar í landi mikið Futsal fyrstu árin, enda þykir iðkun Futsal styrkja mjög boltatækni leikmanna og er frábær leið til að kenna undirstöðuatriði í knatttækni.  Flestir flinkustu Brasilíumennirnir hafa komið í gegnum Futsal-skólann og nægir þar að nefna Ronaldinho, Ronaldo, Robinho, Diego og Deco, svo einhverjir séu nefndir.  Spænska félagið Barcelona notar einnig mikið af Futsal í knatttæknikennslu sinni og má nefna að Andrés Iniesta og Xavi léku báðir Futsal á sínum yngri árum.

Það er engin spurning í mínum huga að útbreiðsla Futsal hér á landi geti orðið mikil á komandi árum.  Eiginleikar knattarins gera það að verkum að hann er mun viðráðanlegri í móttöku og tækni á þröngum svæðum.  Þannig hafa leikmenn mun betri stjórn á honum en venjulegum fótbolta og á það við bæði um afreksleikmenn og þá sem leika fótbolta eða Futsal sér til skemmtunar.

Íslenskt landslið tekur nú í fyrsta sinn þátt í forkeppni stórmóts í Futsal, þegar karlalandsliðið í Futsal mætir þremur þjóðum í EM-riðli sem leikinn verður að Ásvöllum í Hafnarfirði dagana 21. – 24. janúar.  Mótherjarnir verða Grikkland, Armenía og Lettland og efsta lið riðilsins kemst áfram á næsta stig í undankeppninni. Allt eru þetta þjóðir sem hafa leikið Futsal lengur en við hér á Íslandi og verður afar spennandi að sjá hvernig okkar strákar, undir stjórn Futsal-landsliðsþjálfarans Willums Þórs Þórssonar, standa sig.  Ég hvet stuðningsmenn Íslands og unnendur knattspyrnu að fjölmenna á leiki mótsins og fylgjast með þessum flinku leikmönnum sýna listir sínar.  Leikirnir í Futsal eru hraðir og skemmtilegir, nóg af færum og glæsilegum tilþrifum.

Áfram Ísland!

Rúnar V. Arnarson

formaður starfshóps KSÍ um útbreiðslu Futsal

 

FIFA HM í Futsal:  http://www.fifa.com/tournaments/archive/tournament=106/awards/index.html

UEFA EM í Futsal:  http://en.uefa.com/futsaleuro/index.html

EM riðill Íslands:  http://www.ksi.is/mot/motalisti/urslit-stada/?MotNumer=23863