• mán. 13. mar. 2006
  • Lög og reglugerðir
  • Ársþing

Ábendingar til félaga um staðalsamning KSÍ 2006

Leikmaður Gróttu með knöttinn
grotta_gg1

Á síðasta ársþingi KSÍ voru samþykktar nokkrar breytingar á reglugerð KSÍ um staðalsamninga. Hér að neðan gefur að líta luppfærðar leiðbeiningar um samningsgerð sem vonandi gagnast samningsaðilum.

Þá er minnt á að allir samningar sem eru gerðir eftir 11. febrúar þurfa að vera á nýju staðalformi sem finna má hér á vefnum (mótamál/eyðublöð).

Huga þarf að fjölmörgum atriðum þegar ganga skal frá samningi við leikmann. Vanda þarf allan frágang svo að samningur verði samþykktur af skrifstofu KSÍ. Ýmsar breytingar hafa verið gerðar undanfarin ár á reglugerð KSÍ um samninga og stöðu félaga og leikmanna. Hér á eftir verða rakin helstu atriði sem þarf að huga að við samningsgerð:

1) Sambandssamningur eða leikmannssamningur

Efst á formi staðalsamnings er merkt við hvort um leikmannssamning eða sambandssamning er að ræða.

Félög í Landsbankadeild og 1. deild karla karla og Landsbankadeild kvenna hafa tvo kosti þegar samið er við leikmann. Þau geta gert leikmannssamning eða sambandssamning. Önnur félög geta aðeins gert sambandssamning. Hér er mikilvægt að gera sér grein fyrir að sambandssamningur er skilgreindur sem áhugamannssamningur (amateur samningur) og að hann veitir félagi lítil sem engin réttindi við félagaskipti til erlends félags (uppeldisbætur eru þó tryggðar fyrir yngri en 23 ára skv. reglum FIFA). Leikmannssamningur (professional samningur) veitir hins vegar full réttindi. Í reglugerðinni segir: ,,Heildargreiðslur vegna sambandsleikmanns og til hans mega ekki fara út fyrir ramma þessarar reglugerðar og aldrei fara yfir 300.000 kr. á ári.".

2) Samningstími

Í upphafi samnings er samningstími skilgreindur með því að rita upphafsdagsetningu og lokadagsetningu. Upphafsdagsetning getur verið hver sem er en að öllu jöfnu er það dagsetning undirritunar samnings. Lokadagsetning getur hins vegar aðeins verið á tímabilinu 16. október til 31. desember.

Leikmannssamning er heimilt að gera til allt að fimm keppnistímabila í Landsbankadeild karla, en þriggja keppnistímabila í 1. deild karla og Landsbankadeild kvenna. Ekki er heimilt að gera lengri samning en til þriggja keppnistímabila við leikmann sem er yngri en 18 ára.

Sambandssamningur getur að hámarki verið til tveggja keppnistímabila og getur í raun að lágmarki staðið í 1 mánuð. Sambandssamning er ekki hægt að fá skráðan frá og með 1. ágúst nema að hann nái einnig yfir næsta keppnistímabil.

3) Tryggingar leikmanns

Í reglugerðinni segir (stafliður f í 2. grein staðalsamnings): ,,Félagið skal ganga frá tryggingu fyrir leikmanninn, sem nær yfir slys og meiðsli við æfingar, keppni, ferðir og starf í tengslum við félagið og KSÍ, sem tryggir leikmanninum slysadagpeninga, örorkubætur og e.t.v. dánarbætur samkvæmt eftirfarandi:"

Hér er nauðsynlegt að fram komi hvað bætur leikmanni eru tryggðar. Félagi er skylt að senda KSÍ afrit af tryggingarskírteini fyrir samningsbundna leikmenn og skal það gert fyrir 30. apríl ár hvert. Í tryggingarskírteininu eða staðfestingu tryggingarfélags þarf að koma fram staðfesting á því að tryggingin nái til slysa eða meiðsla sbr. staflið f í 2. grein staðalsamnings.

Þá er nauðsynlegt að tryggingin nái til allra þeirra leikja sem leikmaður tekur þátt í á vegum félagsins en sumir leikmenn taka þátt í verkefnum með til dæmis 2. fl. og U23.

4) Hlutdeild leikmanns og efri mörk

Í reglugerðinni segir (stafliður b í 3. grein staðalsamnings): ,, Óheimilt er að setja inn í samninga eða fylgiskjöl þeirra ákvæði sem takmarka rétt félags við félagaskipti. Leikmanni er heimilt að semja sérstaklega um hlutdeild í félagaskiptagjaldi við félagaskipti milli landa. Samkvæmt samningi þessum skal hlutur leikmanns vera ______ % (mest 10%, nema fyrir liggi sérstök heimild frá KSÍ um slíkt)."

Þetta þýðir að það getur ekki verið hluti af samningi félags og leikmanns (í skráðu fylgiskjali) að félagið skuli leysa leikmanninn undan samningi ef tilboð berst í leikmanninn.

5) 4. grein staðalsamnings - Annað (laun, hlunnindi, sektarákvæði o.fl.)

Hér er hægt að gera sérstök samningsatriði milli aðila að hluta staðalsamningsins. Í mörgum tilfellum kann það að vera fullnægjandi fyrir aðila og er þá engin þörf fyrir fylgiskjal/skjöl.

6) Fylgiskjöl

Öll fylgiskjöl samnings skulu skráð á staðalform samnings. Aðeins skjöl sem skráð eru í staðalsamningi verða tekin gild komi til ágreinings og þau ber að senda með samningnum til skráningar. Mikilvægt er að gera sér grein fyrir að fylgiskjöl geta ekki haft víðari tímamörk en staðalsamningur. Þá er rétt að benda á að meginatriði samnings, s. s. ákvæði um umbun til leikmanns verða að ná yfir allan samningstímann. Rétt er að mæla með því að í fylgiskjölum komi ekki fram dagsetningar (nema þegar nauðsynlegt er) heldur aðeins að fylgiskjalið gildi á þeim samningstíma sem skilgreindur er í staðalsamningi.

7) Undirritun og skil til KSÍ

Skila ber samningi og skráðum fylgiskjölum innan mánaðar frá undirritun til KSÍ. Skrifstofa KSÍ getur hafnað samningi vegna formgalla og skal þá báðum samningsaðilum tilkynnt um það. Skrifstofunni er einnig heimilt að veita allt að 2 vikna viðbótarskráningartíma til að bæta úr formgöllum. Til þess að samningur verði skráður verður KSÍ þó að berast staðfesting á því að félagið hafa greitt félagaskiptagjald eða gjald til fyrri félags/félaga ef um fyrsta samning er að ræða. Ef einhverju efnisatriði samnings er breytt eftir undirritun (og áður en honum er skilað) verða báðir aðilar að setja upphafsstafi sína við slíka breytingu. Þetta á einnig við um breytingu á samningsatriði á fylgiskjali.

Rétt er að minna á að heimilt er að gera samning við leikmann á því almanaksári sem hann verður 16 ára. Ef leikmaður er ekki orðinn 18 ára skal forráðamaður hans einnig undirrita samninginn.

Þá þarf að koma fram hvort umboðsmaður kom fram fyrir hönd leikmannsins eða ekki og ef svo er þarf umboðsmaðurinn að undirrita staðalsamninginn.

8) Skuldbinding félags

Minnt skal á að félag sem gerir samning við leikmann skuldbindur sig til að hlíta reglum KSÍ um félagaskipti leikmanna. Jafnframt skuldbindur félagið sig til þess að hafa ekki samband við samningsbundinn leikmann nema að fengnu leyfi frá viðkomandi félagi. Þó er heimilt að ræða við samningsbundinn leikmann eftir 15. október án leyfis samningsfélags, ef samningur hans rennur út eigi síðar en um næstu áramót.

9) Tímabundin félagaskipti

Keppnisleyfi á grundvelli tímabundinna félagaskipta verður ekki gefið út nema að félög sýni fram á að þau hafi uppfyllt ákvæði B-2 í reglugerð KSÍ um félagaskipti leikmanna. Afrit af samningnum þarf að berast með rétt útfylltu eyðublaði.

Félög sem semja um tímabundin félagaskipti leikmanns skulu gera um það skriflegan samning sem fram koma kvaðir félaganna og hlutur leikmanns og skal hann undirritaður af báðum félögum og leikmanni. Komi til vanefnda af hálfu félags sem fær til sín leikmann með tímabundnum félagaskiptum skal samningsfélag leikmanns ábyrgt fyrir efndum á leikmannssamningi hans. Brot á ákvæðum þessum skal fara með skv. kafla H í reglugerð KSÍ um samninga og stöðu félaga og leikmanna.