• þri. 04. nóv. 2008
  • Pistlar

Ísland á EM 2009

Geir Þorsteinsson
Geir_Torsteinsson_1

A landslið kvenna náði sl. fimmtudag þeim langþráða áfanga að vinna sér rétt til þátttöku í úrslitakeppni EM. Þetta var mikill sigur fyrir leikmenn liðsins og þjálfara. Aldrei fyrr hefur KSÍ átt landslið í úrslitakeppni A landsliða á vegum Knattspyrnusambands Evrópu. En þetta er ekki bara sigur fyrir leikmenn liðsins og þjálfara heldur ekki síður öll þau fjölmörgu aðildarfélög KSÍ sem lagt hafa mikla rækt við uppbyggingu og þjálfun kvenna í knattspyrnu. Þar hafa margir forystumenn lyft grettistaki og eiga þeir heiður skilinn fyrir mikið og óeigingjarnt brautryðjendastarf.

Úrslitakeppni EM fer fram í Finnlandi 23. ágúst - 10. september 2009. Landslið frá 12 þjóðum hafa unnið sér rétt til þátttöku: Finnland, Svíþjóð, Þýskaland, Danmörk, England, Frakkland, Noregur, Holland, Ísland, Ítalía, Rússland og Úkraína. Það vekur auðvitað athygli að 5 lið frá Norðurlöndum taka þátt og sýnir það sterka stöðu svæðisins í knattspyrnu kvenna. Leikið verður í Helsinki, Lahti, Tampere og Turku. Liðunum verður skipt í 3 riðla og verður dregið í þá í Finlandia Hall í Helsinki 18. nóvember nk. kl. 12 að íslenskum tíma.

Framundan er undirbúningur A landsliðs kvenna fyrir þessa mikilvægu keppni. KSÍ mun leggja áherslu á að vanda hann og finna um leið góða lausn á mótahaldi innanlands í meistaraflokki kvenna á komandi keppnistímabili.

Ég vil nota tækifærið og óska stelpunum okkar enn og aftur til hamingju sem og þjálfurum, læknum, sjúkraþjálfurum, liðsstjórum og öðrum þeim sem komu að liðinu í þessari undankeppni og minni á að stjórn KSÍ hét stelpunum 10 m. kr. afreksstyrk ef liðið kæmist í úrslitakeppni EM og nú er hann þeirra. 

Ég vil þakka þeim fjölmörgu sem lagt hafa leið sína á völlinn, bæði hér heima og erlendis, fyrir ómetanlegan stuðning við stelpurnar og ekki síður vil ég þakka stuðningsaðilum KSÍ sem stutt hafa dyggilega við bakið á sambandinu í þessu verkefni.  Stelpurnar hafa með frammistöðu sinni heillað þjóðina og eiga stuðning hennar vísan í því starfi sem framundan er.    

Geir Þorsteinsson

Formaður KSÍ