• lau. 09. maí 2009
  • Pistlar

Velkomin til leiks

Geir Þorsteinsson
Geir_Torsteinsson_1

Enn á ný fögnum við sumri og því í dag fer knattspyrnan í gang á völlum landsins. Tuttugu þúsund keppendur innan vébanda KSÍ ganga til leiks auk þúsunda annarra sem taka þátt í knattspyrnuleikjum án þess að vera skráðir þátttakendur í knattspyrnuhreyfingunni.

Efstu deildir karla og kvenna bera nú nafn Pepsi að það er mikið fagnaðarefni að fá Ölgerðina til samstarfs við íslenska knattspyrnu.  Pepsi hefur verið tengt á jákvæðan hátt við knattspyrnu um allan heim til fjölda ára og er ég fullviss um að það sama verði upp á teningnum hér á landi.

Það er vel við hæfi að það séu konurnar sem hefja Íslandsmótið í ár en Pepsi-deild kvenna hefur göngu sína í dag.  Kvennalandslið okkar verða áberandi á tímabilinu því tvö þeirra leika í úrslitakeppni EM á þessu sumri.  Stelpurnar í U19 fóru með sigur af hólmi í sterkum milliriðli í Póllandi í síðasta mánuði og munu því leika í úrslitakeppninni í Hvíta Rússlandi í júlí.  Þá mun auðvitað A landslið kvenna láta ljós sitt skína í Finnlandi í ágúst og september í úrslitakeppni EM.  Það verður mikil tilhlökkun að fylgjast með þessum liðum og árangur þeirra sýnir hversu vel hefur verið staðið að kvennaknattspyrnu hjá félögunum hér á landi undanfarin ár.

VISA bikarkeppni karla hefst núna í maí en í ár verður 50. úrslitaleikurinn leikinn í bikarkeppni karla.  Af þessu tilefni kemur út bók rituð af Skapta Hallgrímssyni um sögu bikarkeppninnar.  Úrslitaleikir karla og kvenna í VISA bikarnum fara nú fram sömu helgina í byrjun október og slá þá botninn í tímabilið.

Karlalandsliðið verður í eldlínunni strax í byrjun júnímánaðar á Laugardalsvellinum þegar stórlið Hollands kemur í heimsókn.  Í kjölfarið heldur liðið til Makedóníu en síðasti leikur Íslands í riðlakeppninni fyrir HM 2010 verður á heimavelli gegn Noregi.  Tveir æfingaleikir verða einnig hjá körlunum hér á heimavelli í ágúst og september, gegn Slóvakíu og Georgíu

Fjölmargir leikir fara einnig fram í yngri flokkum en utan þeirra móta sem yngri flokkar taka þátt í á vegum KSÍ eru einnig opin mót sem aðildarfélög halda fyrir yngri flokka og hefur þeim mótum verið að fjölga umtalsvert á síðustu árum.

Ég vil þakka forystumönnum íslenskra knattspyrnufélaga mikið og óeigingjarnt starf, nú sem fyrr. Ég bíð leikmenn, þjálfara og aðra starfsmenn keppnisliða velkomna til leiks sem og dómarana sem ávallt eiga skilið að fyrir þeim og þeirra starfi sé borin virðing. Ekki berum við síður virðingu fyrir öll þeim fjölda sjálfboðaliða sem leggja mikið af mörkum til þess að halda knattspyrnustarfinu gangandi og koma að framkvæmd leikja.

Það er spennandi og skemmtilegt knattspyrnusumar framundan og ég óska öllum þeim sem að knattspyrnu koma, leikmönnum, stjórnarmönnum, foreldrum, dómurum og öðrum starfsmönnum velfarnaðar og býð þau velkomin til leiks.  Fjölmennum á völlinn í sumar og tökum þátt í að skapa spennandi leik og fjölskylduvæna skemmtun.

Með knattspynukveðju

Geir Þorsteinsson

formaður KSÍ