• fös. 19. jún. 2009
  • Pistlar

Þökk sé umferðarljósum !

Gylfi Orrason
Gylfi_Orrason

 

Staður og stund – London 24. júlí 1966, á meðan á úrslitakeppni Heimsmeistarakeppninnar í knattspyrnu stóð. Stóri maðurinn við stýrið á litla sportlega MG-bílnum stöðvaði snögglega þegar umferðarljósin skiptu á gult og síðan rautt. Hann var að reyna að komast af hinni kyrrlátu hliðargötu Wright’s Lane inn á iðandi Kensington High Street og blótaði því í hljóði.  Þetta myndi verða löng bið. Hann var þreyttur og þráði að losna frá háværum röddum, blindandi flassljósum og ógnvekjandi míkrófónum æstra fjölmiðlamanna er enn leituðu að mylsnu æsifréttarinnar frá því um helgina. Þetta hafði verið slæm vika fyrir knattspyrnuna – íþróttina sem hann hafði helgað svo stóran hluta af lífi sínu.

Á meðan umferðarljósin virtust vera föst á rauðu varð honum hugsað til hinnar örlagaríku atburðarrásar í leik Englands og Argentínu í fjórðungsúrslitum Heimsmeistarakeppninnar á Wembley daginn áður og afleiðingar hennar. Fram til þessa hafið keppnin gengið snurðulaust fyrir sig.  Aðstæður voru allar til fyrirmyndar – gullfallegur sumardagur, iðagrænn leikvöllurinn, 90.000 litríkir og glaðbeittir áhorfendur.

Því miður reyndust gæði knattspyrnunnar hins vegar ekki standa undir væntingum að þessu sinni. Leikurinn var leiðinlegur á að horfa þar sem aragrúi aukaspyrna kom í veg fyrir að hann fengi að fljóta. Að loknum 36 mínútna leik horfðu áhorfendur hneykslaðir á er Rattin, fyrirliði Argentínumanna, veittist að hinum snyrtilega þýska dómara, Rudolph Kreitlein.

Rattin var að mótmæla því sem hann taldi vera hlutdræga meðferð sem enska liðið nyti góðs af. Kreitlein lét mótmælin sem vind um eyru þjóta, en Rattin lét sér ekki segjast. Dómarinn skildi ekki hvað leikmaðurinn var að segja, en virtist greinilega mjög ósáttur við móðgandi framkomu hans. Skyndilega benti Kreitlein í átt að búningsherbergjunum og skipaði Rattin út af leikvellinum. Leikmaðurinn neitaði að gefa sig og stóð ógnvekjandi með hendur á mjöðmum á meðan hávært undrunarkliður barst frá áhorfendum.

Ruglingurinn og ringulreiðin jókst og leikmenn Argentínu umkringdu dómarann. Hópurinn færðist nær varamannabekkjunum. Forráðamenn liðsins blönduðu sér í málið og svo virtist sem þeir kölluðu leikmenn sína af velli. Ótrúlegt ! Ætla leikmenn liðs virkilega að ganga af leikvelli í fyrsta sinn í sögu Heimsmeistarakeppninnar? Og það á sjálfum Wembley – Mekka knattspyrnunnar?

Ökumaðurinn skrifaði síðar skýrslu um afskipti sín af málinu: “Þetta var erfitt augnablik fyrir dómarann.  Hugsanlega yrði að aflýsa leiknum – sem yrði stórslys fyrir Heimsmeistarakeppnina. Það var hins vegar ekki mitt hlutverk að skipta mér af málinu. Engu að síður ákvað ég þó að yfirgefa sæti mitt á bekk við leikvöllinn og hraðaði mér á vettvang. Ég náði að eiga orðastað við Rattin sem sagðist vilja fá túlk til þess að geta rætt skoðanir sínar við dómarann. Mér tókst að telja hann á að yfirgefa leikvöllinn.  Leikurinn hélt síðan áfram eftir langa sjö mínútna töf.” 

Þessi umdeildi leikur átti síðan eftir að hafa enn frekari afleiðingar þegar fréttir bárust af því í blöðunum að dómarinn hafi einnig áminnt báða Charlton bræðurna, þá Bobby og Jack. Svo virtist sem dómarinn hafi ekki gefið áminningarnar skýrt til kynna á vellinum og því óskaði framkvæmdastjóri enska landsliðsins, Alf Ramsey, eftir útskýringum á málinu frá FIFA.

Ökumaðurinn sem beið á umferðarljósunum á Kennsington High Street hélt áfram að brjóta heilann um málið: “Hvernig getum við komið í veg fyrir slík vandkvæði í framtíðinni?” Skyndilega rann upp fyrir honum ljós, í orðsins fyllstu merkingu ! “Þegar gula ljósið birtist þá hægði ég á mér og síðan stoppaði ég þegar það rauða kom ! Þarna leynist svarið: GULT – FARÐU ÞÉR HÆGT, RAUTT – ÞÚ FERÐ ÚT AF !

Ökumaður bílsins í sögunni hér að framan var hinn frægi enski dómari á árum áður, Ken Ashton, sem var FIFA-dómari í fjölmörg ár og síðan formaður Dómaranefndar FIFA. Hann lést í október árið 2001 86 ára að aldri. Tilgangurinn með hugmynd hans um notkun gulu og rauðu spjaldanna var að draga úr þeim vandkvæðum sem tungumálaerfiðleikar skapa í samskiptum dómarateyma við leikmenn og forráðamenn liða.  Spjöldin voru fyrst notuð í opnunarleik Heimsmeistarakeppninnar í Mexíkó árið 1970, en í 32 leikjum keppninnar var gula spjaldið sýnt 45 sinnum en það rauða fór þá aldrei á loft. Ákvæðum um notkun spjaldanna var hins vegar ekki bætt inn í sjálf knattspyrnulögin fyrr en árið 1993 með breytingum þar að lútandi við 12. grein laganna.

Þýtt og endursagt úr FIFA Magazine og gögnum af  www.fifa.com af Gylfa Þór Orrasyni