• mið. 02. sep. 2009
  • Pistlar

Frábær frumraun

Geir Þorsteinsson
Geir_Torsteinsson_1

Ævintýri A landsliðs kvenna í Finnlandi er nú lokið en af frammistöðu liðsins að dæma er ljóst að þátttaka þeirra á úrslitakeppninni nú er aðeins upphafið að  frekari afrekum.  Þrátt fyrir að leikirnir þrír hafi allir tapast naumlega var frammistaða leikmannanna og starfsmanna liðsins til mikils sóma og geta Íslendingar verið stoltir af þessari frumraun A liðs Íslands í úrslitakeppni stórmóts. 

Enginn ætti að efast um að fjölmargir aðilar hafa lagt mikið á sig til þess að draumurinn um þátttöku í úrslitakeppni yrði að veruleika og hefur verið aðdáunarvert að fylgjast með því hvernig landsliðsstúlkurnar hafa hrifið með sér áhorfendur og Íslendinga alla held ég að óhætt sé að segja.  Stuðningsmenn liðsins hafa jafnframt unnið mikla sigra og vandfundið er það lið í evrópskri knattspyrnu kvenna sem á jafn góðan hóp stuðningsmanna sem sýndi af sér fyrirmyndar framkomu í Finnlandi og studdi liðið með ráð og dáð fram á síðustu mínútu leikjanna.

Fjölmiðlar hafa sýnt þátttöku liðsins mikinn og verðskuldaðan áhuga og hefur þessum dögum í Finnlandi verið gerð góð skil af hálfu allra fjölmiðla sem á annað borð fjalla um íþróttir. 

Fyrir liggur næsta stóra verkefni sem er þátttaka í undankeppni fyrir úrslitakeppni HM 2011 sem fram fer í Þýskalandi og lofar upphafsleikur okkar í þeirri keppni góðu um framhaldið.  Markmiðið er að komast alla leið en aðeins 5 sæti eru í boði fyrir landslið frá Evrópu í 12 liða lokakeppni. Við búum nú að mjög mikilvægri reynslu sem eflaust mun auðvelda okkur að ná settum markmiðum en mikilvægast er líklega að leikmennirnir hafa kynnst því hvernig er að taka þátt í lokakeppni stórmóts.  

Ég þakka leikmönnum liðsins, þjálfurum og öðrum starfsmönnum fyrir þátttökuna í úrslitakeppni EM 2009 – við erum stolt af ykkur framlagi fyrir hönd íslenskrar knattspyrnu. Fjölmiðlum og ekki síst frábærum stuðningsmönnum þakka ég jafnframt þeirra hlut og ítreka þá skoðun mína að kvennalandsliðið á einhverja bestu stuðningsmenn í Evrópu, það er ómetanlegt.

Ég þakka samstarfsaðilum KSÍ frábæran stuðning við A landslið kvenna, afrekssjóði ÍSÍ og afrekssjóði Glitnis góðan stuðning. Áfram stelpur – áfram Ísland.

Geir Þorsteinsson

Formaður KSÍ