• mán. 28. jún. 2010
  • Dómaramál

Dómarar og eftirlitsmenn á ferð og flugi í júlí

UEFA
uefa_merki

Það eru ekki bara íslensk félagslið sem verða í eldlínunni í Meistaradeild og Evrópudeild UEFA í júlímánuði heldur verða einnig íslenskir dómarar og dómaraeftirlitsmenn við störf á þessum vettvangi.

Þann 8. júlí næstkomandi mun Þóroddur Hjaltalín dæma leik F91Dudelange frá Lúxemborg og Randers frá Danmörku í Evrópudeild UEFA.  Honum til aðstoðar verða þeir Gunnar Sverrir Gunnarsson og Frosti VIðar Gunnarsson og varadómari er Jóhannes Valgeirsson.

Sama dag mun Magnús Þórisson dæma leik Dundalk frá Írlandi og Grevenmacher frá Lúxemborg og er sá leikur einnig í Evrópudeildinni.  Magnúsi til aðstoðar verða þeir Áskell Gíslason og Oddbergur Eiríksson og varadómari verður Þorvaldur Árnason.

Þá verða íslenskir dómaraeftirlitsmenn einnig við störf í næsta mánuði og vegum UEFA.  Eyjólfur Ólafsson verður við störf á leik AIK frá Svíþjóð og Jeunesse Esch frá Lúxemborg 13. júlí næstkomandi.  Þá verður Sigurður Hannesson við eftirlit dómara á leik KFK Siauliai frá Litháen og Wisla Krakow frá Póllandi í Evrópudeildinni 15. júlí og sama dag verður Ingi Jónsson að störfum á leik JK Trans Narva frá Eistlandi eða MyPa frá Finnlandi gegn UE Sant Julià frá Andorra.  Gylfi Orrason verður svo við dómaraeftirlit á leik Sporting Fingal frá Írlandi og Marítimo da Madeira frá Portúgal þann 22. júlí næstkomandi en sá leikur er einnig í Evrópudeild UEFA.