• fim. 22. feb. 2024
  • Ársþing
  • Dómaramál

Selfoss fær hvatningarverðlaun í dómaramálum 2023

Dómaraverðlaunum er skipt upp í tvo flokka: Fyrirmyndarfélag í dómaramálum og Hvatningarverðlaun í dómaramálum.

Selfoss fær hvatningarverðlaun KSÍ fyrir árið 2023.

Selfoss kom á laggirnar verkefni sem er ætlað að efla og styrkja dómarastarfið í félaginu og hefur það farið afar vel af stað. Í byrjun hvers árs eru foreldrar iðkenda fræddir um mikilvægi dómara og hversu eflandi og gefandi það er fyrir iðkendur og foreldra að taka þátt í dómarastarfinu. Allir dómarar yngri en 18 ára eru í bláum dómarabúningi. Blár búningur merkir það að dómari sé ungur, jafnvel að taka sín fyrstu skref í dómgæslu og þurfi hvatningu, stuðning og hrós í stað skamma, þrýstings eða fúkyrða.

Með þessu nær félagið að virkja yngri iðkendur til að taka þátt og fær áhorfendur með til að efla sjálfstraust dómara en einnig til að hvetja til góðra verka og stuðnings allra sem taka þátt í leiknum, leikmanna, dómara og þjálfara.

Á myndinni hér að ofan sem og að neðan má sjá unga dómara á Selfossi