• fös. 23. jan. 2015
  • Fréttir

Formaður KSÍ gefur kost á sér í stjórn UEFA

UEFA
2068034_w4

Kosið verður í stjórn Knattspyrnusambands Evrópu 24. mars nk. á þingi sambandsins. Michel Platini er einn í kjöri til formanns en einnig verður kosið um 7 stjórnarmenn af 15. Framboðsfrestur rennur út 24. janúar og hefur Geir Þorsteinsson, formaður KSÍ, ákveðið að gefa kost á sér. Aðeins þeir sem eru virkir í starfi innan knattspyrnusambanda í Evrópu eru kjörgengir. Geir er einn af reyndari formönnum knattspyrnusambanda í Evrópu um þessar mundir, en hann mun vafalaust etja kappi við marga aðra forystumenn knattspyrnusambanda um þessi 7 sæti. Geir sækist eftir endurkjöri í embætti formanns KSÍ á ársþingi KSÍ í febrúar nk. 

Geir Þorsteinsson"Ég hef setið í ýmsum nefndum UEFA á undanförnum misserum sem formaður KSÍ og m. a. tekið virkan þátt í miklum breytingum á skipulagi móta fyrir A landslið karla í Evrópu sem að hluta hafa þegar litið dagsins ljós og fleiri breytingar verða innleiddar á næstu árum. Ég hef fundið að reynsla mín af störfum fyrir knattspyrnuhreyfinguna hefur nýst mér vel á evrópskum vettvangi og framboð mitt til stjórnar UEFA mun ekki breyta því, að það er og verður mín fyrsta og helsta skylda að sinna málefnum KSÍ sem formaður á meðan ég nýt stuðnings aðildarfélaganna til þess", sagði Geir í tilefni af framboði sínu til stjórnar UEFA.

Um framkvæmdastjórn UEFA