• lau. 13. feb. 2016
  • Ársþing

Setningarræða formanns á 70. ársþingi KSÍ

Opnunarraeda-formanns

Ársþing KSÍ, það 70. í röðinni, stendur nú yfir á Hilton Nordica Reykjavík en þingið var sett kl. 10:30.  Þingið hófst með setningarræðu formanns, Geirs Þorsteinssonar, og er hana að finna hér að neðan.

"Árið 2015 verður skráð í knattspyrnuannála sem árið þegar Ísland vann sér rétt til að leika í úrslitakeppni EM karla í fyrsta sinn. Frábært knattspyrnuár er að baki, líklega það besta í sögu íslenskrar knattspyrnu. Loksins er Ísland á meðal þátttökuþjóða í úrslitakeppni Evrópumóts karla í knattspyrnu. Það var stór stund þegar dómarinn flautaði til leiksloka á Laugardalsvelli 6. september síðastliðinn.  Markalaust jafntefli Íslands og Kasakstan var staðreynd og íslenska landsliðið hafði tryggt sér sæti í úrslitakeppni EM 2016 í Frakklandi. Liðið var þá nýkomið heim frá Amsterdam þar sem það vann einn sinn stærsta sigur, 1-0, á HM bronsliði Hollands. Þetta var stór áfangi fyrir íslenska knattspyrnu og athygli knattspyrnuheimsins beindist enn frekar að Íslandi. Eftir lokaleikina í október hafnaði lið Íslands síðan í 2. sæti í sínum riðli eftir 6 sigurleiki, 2 jafntefli og 2 ósigra; með markatöluna 17-6. Glæsilegur árangur liðsins undir stjórn Lars og Heimis. Framundan er því þátttaka í úrslitakeppni í júní og þar verða mótherjar okkar Portúgal, Ungverjaland og Austurríki. Ljóst er að mikill fjöldi Íslendinga mun fylgja liðinu til Frakklands. Það eitt og sér á eftir að hjálpa strákunum okkar í erfiðri keppni hinna bestu.

Árangur landsliða Íslands í knattspyrnu á síðustu árum hefur vakið mikla athygli. Þegar svo A landslið karla komst í úrslitakeppni EM og varð lið númer þrjú í röðinni til þess að vinna sér inn þann rétt, fjölgaði mjög fyrirspurnum og óskum um viðtöl til KSÍ. Fjölmiðlar, forystumenn annarra knattspyrnusambanda og áhugafólk leituðu skýringa og svara. Reynt hefur verið að sinna þessum erindum af kostgæfni og hróður íslenskrar knattspyrnu hefur víða farið. En þátttaka á stórmóti hefur einnig leitt til aukins álags á ýmsum öðrum sviðum og ljóst er að verkefnið er umfangsmikið fyrir lítið knattspyrnusamband. Það verður hins vegar allt gert til þess að þátttaka Íslands verði vel skipulögð og undirbúningur liðsins eins og best verður á kosið.

Síðastliðið sumar var svo dregið í riðla í undankeppni HM 2018. Mótherjar Íslands verða Króatía, Úkraína, Tyrkland og Finnland. Efsta liðið í riðlinum kemst til Rússlands þar sem úrslitakeppnin fer fram, auk þess sem þau 8 lið sem bestum árangri ná í öðru sæti í riðlunum 9 leika í umspili um 4 sæti í HM. Það verður því lítið hlé hjá liðinu eftir EM en fyrsti leikur í undankeppni HM fer fram í Úkraínu 5. september næstkomandi.

A landslið karla hefur fengið gríðarlegan stuðning á heimavelli og uppselt var á leiki liðsins. Enn og aftur vakna spurningar um Laugardalsvöll sem framtíðarleikvöll liðsins. Stjórn KSÍ ákvað að fara nýja leið í málinu og fékk ráðgjafarfyrirtækið Borgarbrag til að athuga með skipulögðum hætti hvort grundvöllur sé fyrir byggingu fjölnota þjóðarleikvangs í Laugardal sem uppfyllir nútímakröfur til knattspyrnuiðkunar á alþjóðlegum vettvangi. Borgarbragur hefur skilað skýrslu sem kynnt verður í meginatriðum hér á eftir. Lagt er til að KSÍ, í samstarfi við eigandi vallarins, Reykjavíkurborg og ríkið láti gera hagkvæmisathugun miðað við áðurnefnd markmið og fái til verksins viðurkenndan erlendan aðila. Stjórn KSÍ vill árétta að slík athugun og hugsanleg framtíðaruppbygging í kjölfarið miðast við að þátttaka KSÍ hafi ekki neikvæð fjárhagsleg áhrif á kjarnastarfsemi KSÍ, þ. e. rekstur knattspyrnustarfsins. Það sama á við aðildarfélögin og sér í lagi þá félögin í Reykjavík sem treysta á framlög frá borginni.

A landslið kvenna byrjaði vel í undankeppni EM 2017, en úrslitakeppnin fer fram í Hollandi og í fyrsta sinn verða þátttökuþjóðirnar 16 talsins í stað 12 áður. Ísland lék 3 leiki og vann öruggan sigur í þeim öllum. Skotland verður augljóslega aðal keppinautur okkar liðs en skoska liðið hefur unnið 4 fyrstu leiki sína. Lið Íslands og Skotlands munu mætast tvisvar á árinu 2016 og munu þeir leikir væntanlega ráða úrslitum í riðlinum. Efsta lið hvers riðils kemst í úrslitakeppnina auk þeirra 6 liða sem bestum árangri ná í öðru sæti í riðlunum átta. Þau 2 lið sem þá standa eftir og hafna í öðru sæti í sínum riðlum leika í umspili um síðasta sætið í úrslitakeppninni. Framundan eru því mikilvægir leikir hjá íslenska liðinu, sem ætlar sér til Hollands. Tvær landsliðskonur, þær Hólmfríður Magnúsdóttir og Margrét Lára Viðarsdóttir, náðu þeim frábæra árangri að leik sinn 100. A landsleik á árinu.

Byrjun strákanna í U21 landsliði karla í undankeppni EM 2017 lofar góðu. Liðið er sem stendur í efsta sæti síns riðils með 11 stig eftir 5 umferðir og er eina taplausa liðið. Frækinn sigur á landsliði Frakklands á Kópavogsvelli í byrjun september á sl. ári sýndi vel hvað býr í liðinu og strákarnir eru til alls vísir. Framundan eru þrír leikir á útivelli og síðan lýkur keppninni með tveimur heimaleikjum í október 2016. Úrslitakeppnin fer fram í Póllandi 2017 og þar munu 12 lið taka þátt, en í síðustu keppnum hafa liðin verið 8. Sigurvegarar í riðlunum 9 komast beint í úrslit auk þess sem þau 4 lið sem bestum árangri ná í 2. sæti riðlanna leika í umspili um tvö sæti.  

KSÍ hélt úrslitakeppni Evrópumóts U17 landsliða kvenna 2015 í Reykjavík, Kópavogi, Grindavík og á Akranesi. Auk Íslands tóku landslið frá Englandi, Frakklandi, Þýskalandi, Spáni, Sviss, Írlandi og Noregi þátt í keppninni. Leikið var í tveimur fjögurra liða riðlum. Keppnin var mikil reynsla fyrir íslensku stúlkurnar en liðið beið lægri hlut í öllum sínum leikjum. Til úrslita léku Spánn og Sviss. Spánn var með yfirburðalið og vann öruggan sigur. Keppnin tókst í alla staði vel og lögðu mörg aðildarfélög KSÍ sitt af mörkum. Þau eiga þakkir skildar sem og mikill fjöldi sjálfboðaliða sem vann við mótið. Alls mættu rúmlega 6.000 áhorfendur á leikina 15. U17 landslið kvenna og U17 landslið karla komust árinu áfram úr undankeppni EM 2015/16 og leika í milliriðlum í vor. Í lok árs tók Freyr Alexandersson þjálfari A landslið kvenna einnig við þjálfun U17 landsliðs kvenna, en Úlfar Hinriksson verður honum til aðstoðar.

Eins og oft hefur verið sagt er vel skipulagt mótahald hornsteinninn í starfsemi KSÍ og þar varð engin breyting á. Alls skipulagði KSÍ 5.300 leiki um allt land í samstarfi við aðildarfélögin. Slæmt ástand valla á Austurlandi setti svip sinn á upphaf Íslandsmótsins sem annars fór hefðbundið fram. Keppnin var jöfn og skemmtileg. FH varð Íslandsmeistari í næst síðustu umferð Pepsi-deildar karla eins og Breiðablik í Pepsi-deild kvenna.  FH varð því Íslandsmeistari í sjöunda sinn á tólf árum; einstakur og glæsilegur árangur Hafnfirðinga. Breiðablik hafði á hinn bóginn beðið í tíu ár eftir sínum sextánda titli. 

Víkingur Ó. og Þróttur R. unnu sér rétt til að leika í efstu deild karla 2016 og á sama hátt gerðu ÍA og FH það í efstu deild kvenna.

Valur varð bikarmeistari í meistaraflokki karla í 10. sinn eftir sigur á KR. Stjarnan varð bikarmeistari í meistaraflokki kvenna í þriðja sinn eftir sigur á Selfossi annað árið í röð.

Huginn Seyðisfirði og Leiknir Fáskrúðsfirði unnu sér rétt til að leika í 1. deild karla í fyrsta sinn bæði félög og vakti það verðskuldaða athygli. Magni og Völsungur unnu sér rétt til að leika í 2. deild karla og Vængir Júpíters og Þróttur Vogum að leika í 3. deild karla.

Stjórn KSÍ óskar öllum sigurvegurum sl. árs til hamingju með góðan árangur. Bókin Íslensk knattspyrna kom út í 35. sinn á sl. ári og sem fyrr er fjallað ýtarlega um íslenska knattspyrnu í henni í máli og myndum – hún er í reynd árbók íslenskrar knattspyrnu skrifuð af Víði Sigurðssyni. Iðkendum í knattspyrnu fjölgaði á milli ára skv. nýjustu tölum en þær eru fyrir árið 2014. Aukning var um 9,3% og voru skráðir iðkendur alls 22.645. Konur voru um 1/3 iðkenda en karlar 2/3.

Aðsókn á leiki Pepsi-deildar karla var sú besta frá 2011 en að meðaltali mættu 1.107 áhorfendur á leik. Í Pepsi-deild kvenna var aðsóknin að meðaltali 190 áhorfendur á leik.

Fyrirkomulagi Evrópuleikja félagsliða er breytt ef ástæða þykir til á þriggja ára fresti. Á sl. ári tóku gildi breytingar á bæði forkeppni Meistaradeildarinnar og Evrópudeildarinnar, þó öllu meiri á hinni síðarnefndu. Um leið var framlag til keppnisliða verulega hækkað. Fleiri félög og sterkari félög hófu keppni í 1. umferð forkeppni Evrópudeildarinnar og því erfiðara verkefni að ná áfram í keppninni. FH og KR komust í 2. umferð og FH var nærri því að komst í 3. umferð. Víkingur R. féll úr leik í 1. umferð. Stjarnan hóf leik í 2. umferð forkeppni Meistaradeildarinnar en Celtic frá Glasgow var of sterkur mótherji. Kvennamegin komst Stjarnan áfram eftir forkeppni en beið lægri hlut í 32 liða úrslitum Meistaradeildarinnar gegn Zvezda frá Rússlandi annað árið í röð.  

Við verðum að vera á varðbergi gagnvart hagræðingu úrslita innan okkar vébanda. Slík mál hafa komið upp víða í knattspyrnuheiminum og mikilvægt er að við stöndum vörð um heiðarleika íslenskrar knattspyrnu. Vitalega þurfa stjórnvöld að aðstoða íþróttahreyfinguna í þessu máli, sér í lagi þegar kemur að rannsókn slíkra mála, lögum eða reglum til að ná til þeirra sem stæðu fyrir slíku. HÍ og HR, með leyfi vísindasiðanefndar, munu standa fyrir rannsókn á spilavanda leikmanna 18 ára og eldri á þessu ári og hvetjum við forystumenn félaga að taka jákvætt í óskir þeirra um samvinnu.

Á sl. ári undirrituðu fulltrúar KSÍ og 365 miðla hf. samning um rétt 365 til að sjónvarpa leikjum á vegum KSÍ fyrir árin 2016-2021 (6 keppnistímabil). Samningurinn var gerður í nánu samstarfi við stjórn Íslensks toppfótbolta (ÍTF). Þetta er í fyrsta sinn síðan 1998 sem þessi réttindi eru seld beint innanlands, en síðan þá hefur rétturinn verið seldur til erlendra aðila sem hafa endurselt hann að hluta til Íslands. Samningurinn felur í sér að 365 miðlar munu hafa einkarétt til sjónvarpsútsendinga frá eftirtöldum mótum innan sem utan lands: • Íslandsmótið í knattspyrnu / efsta deild karla og kvenna • Bikarkeppni KSÍ í meistaraflokki karla og kvenna • Meistarakeppni KSÍ í karla- og kvennaflokki • Deildarbikarkeppni KSÍ / A deild karla og kvenna. 365 miðlar hafa jafnframt einkarétt á sölu heitis ofangreindra móta, utan deildarbikarkeppni KSÍ, og heiti mótanna fylgja tiltekin markaðsréttindi. Með samningi þessum er stefnt að aukinni umfjöllun um íslenska knattspyrnu í miðlum 365 og m.a. opnast í fyrsta sinn sá möguleiki að hægt verði að sýna alla 132 leikina í efstu deild karla í beinni útsendingu í sjónvarpi eða yfir internetið. Samningurinn mun skila íslenskum knattspyrnufélögum hátt í milljarð króna á sex árum.

Þegar rekstrarniðurstaða íslenskra félaga sem sóttu um leyfi til keppni í tveimur efstu deildum karla 2015 er skoðuð fyrir árið 2014 kemur í ljós að í heildartekjur þeirra (24 félög) höfðu aukist lítillega eða um 60 m. kr. á milli ára og voru tæpir 2,6 milljarðar. Heildarútgjöld hækkuðu á milli ára og voru um 130 m. kr. meiri en árið áður; voru alls 2,65 milljarðar króna. Þannig var heildarniðurstaðan í lok 2014 að teknu tilliti til fjármagnsliða neikvæð um 53. m. kr. en hafði verið jákvæð um 65 m. kr. í árslok 2013. Þetta er þróun til þessa að hafa áhyggjur af.

Í leyfisferlinu fyrir keppnistímabilið 2014 tóku gildi viðmiðunarreglur um fjárhagsstöðu þeirra félaga sem undirgangast kerfið. Annars vegar er um að ræða reglur um eiginfjárstöðu og hins vegar um skuldabyrði. Krafa er gerð um jákvæða eiginfjárstöðu og heildarskuldir og skuldbindingar mega ekki vera hærri en 50% af meðaltali af knattspyrnulegum rekstrartekjum yfir 3 undangengin ár. Af 12 félögum sem léku í efstu deild karla 2015 stóðust 7 þessar kröfur, 2 stóðust hvoruga kröfuna, 2 ekki kröfuna um hámarksskuldabyrði og 1 ekki kröfuna um jákvætt eigið fé. Af 12 félögum sem léku í 1. deild karla 2015 stóðust 6 þessar kröfur, 2 stóðust hvoruga kröfuna og 4 ekki kröfuna um jákvætt eigið fé. Heildarskuldastaða 24 efstu félaganna í árslok 2014 var um 500 m. kr. og versnaði um 40 m. kr. á milli ára; skuldastaðan versnaði hjá 12 félögum á milli ára.

Starfsemi KSÍ er fjölþætt á ýmsum sviðum og sífellt er sótt fram. Fræðslustarfið var öflugt á árinu, sérstaklega fyrir þjálfara og dómara, og voru fjölmörg námskeið haldin auk þátttöku í námskeiðum erlendis. Þjálfaraskóli KSÍ þar sem reyndari þjálfarar leiðbeina þjálfurum á vettvangi skipar æ veigameiri sess. Alls voru haldnir 33 fræðsluviðburðir með 1.141 þátttakanda sem hvort tveggja er met. Hæfileikamótun KSÍ er mikilvæg til að ná enn betur til yngri leikmanna og tóku fjölmargir krakkar þátt víðs vegar um landið. Eins og fyrr tók KSÍ þátt í fjölda samfélags- og grasrótarverkefna á árinu.

Mikilvægur þáttur í starfi KSÍ er að standa vel að málefnum knattspyrnudómara  þannig að þeir komi vel undirbúnir til leiks. Á árinu hófst nýtt átaksverkefni fyrir unga dómara og voru þátttakendur valdir úr hópi dómara á aldrinum 17-25 ára. Markmiðið er að reyna að auka gæði dómgæslunnar á komandi árum.

Rekstur KSÍ á árinu 2015 var í samræmi við samþykkta fjárhagsáætlun á síðasta ársþingi. Rekstrartekjur KSÍ á árinu 2015 námu 1.112 milljónum króna samanborið við 1.067 milljónir króna árið á undan. Hækkun rekstrartekna skýrist fyrst og fremst af auknu framlagi frá FIFA. Rekstrarkostnaður KSÍ var um 956 milljónir króna og hækkar frá fyrra ári um 46 milljónir króna, sem skýrist af hækkun af kostnaði við landslið, fræðslustarfsemi og við rekstur sambandsins.

Að teknu tilliti til fjármagnsliða var hagnaður af starfsemi KSÍ 157 milljónir króna, en áætlun gerði ráð fyrir 153 milljón króna hagnaði. Styrkir og framlög til aðildarfélaga á árinu námu 147 milljónum króna vegna sjónvarps- og markaðsréttinda, styrkja til barna- og unglingastarfs, leyfiskerfis og fleira og er í samræmi við það sem áætlanir gerðu ráð fyrir. Að teknu tilliti til styrkja og framlaga til aðildarfélaga er því hagnaður af rekstri KSÍ um 11 milljónir króna á árinu 2015.

Fjárhags- og eignastaða KSÍ er traust við áramót og lausafjárstaða góð. Handbært fé lækkar á milli ára og var í árslok 2015 um 152 milljónir króna. Eignir námu 581 milljón króna. Eigið fé KSÍ var 221 milljónir króna í árslok.

Rekstrartekjur KSÍ voru 1.112 milljónir króna eins og áður sagði og að auki runnu um 343 milljónir króna til aðildarfélaga KSÍ sem ekki voru tekjufærðar hjá knattspyrnusambandinu heldur viðkomandi félögum en það voru framlög frá UEFA og tekjur af sjónvarps- og markaðsrétti. Í heild voru tekjurnar því um 1.455 milljónir króna og var tæpur einn fjórði þeirra tekjufærður hjá aðildarfélögum sambandsins. Þá er ótalinn mannvirkjasjóður KSÍ en hann var fjármagnaður að fullu með framlagi frá UEFA og fór til framkvæmda aðildarfélaga. Alls voru greiddar rúmar 27 milljónir króna úr mannvirkjasjóð KSÍ árið 2015. Mannvirkjasjóðurinn var rekinn til fjögurra ára með fjármagni frá UEFA. Alls var á fjórum árum 2012 – 2015  greitt úr sjóðnum til 31 félags alls  um 156 m. kr. Það er vel þekkt að margfeldisáhrif þessara styrkja eru mikil. Helstu ný mannvirki sem voru vígð á árinu voru gervigras á keppnisvelli Vals, nýr gervigrasvöllur á Álftanesi og lítið knatthús FH. Gervigras var endurnýjað í Egilshöll og á Þróttarvelli. Það er brýnt að stjórnvöld sjái mikilvægi þess að koma til móts við íþróttahreyfinguna í þessum málaflokki og styðji frumvarp Willums Þórs Þórssonar og fleiri þingmanna um endurgreiðslu á virðisaukaskatti vegna vinnu við íþróttamannvirki. Það er forsenda framfara að nauðsynlegt viðhald fari fram á íþróttamannvirkjum auk þess sem ný rísi.

Lokið var að mestu framkvæmd við ný flóðljós á Laugardalsvelli. Kostnaður á árinu var rúmlega 131 m. kr. og var hann að fullu greiddur af UEFA. Upphaflega stóð aðeins til að skipta um kastara en gömlu möstrin báru ekki nýja og öflugri lýsingu og því hafa flóðljósin að öllu leyti nú verið endurnýjuð. Vinnu við nýja tengiskápa er þó ólokið.

Eins og fram kemur í ársreikningi þá féll á sl. ári dómur í Hæstarétti í máli KSÍ ehf. gegn Landsbankanum hf., en bankinn áfrýjaði dómi Héraðsdóms Reykjavíkur sem úrskurðaði að um ólögmætt gengislán væri að ræða. Hæstiréttur vísaði málinu frá héraði. Málið snýst um meint ólögmætt lán tengt gengi erlendra gjaldmiðla sem upphaflega var tekið á árinu 2006 og að fullu hefur verið greitt. Hagsmunir okkar eru miklir og geta numið nokkur hundruð milljónir króna. Áfram verður haldið með málið og er það að nýju rekið fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur.

Þátttaka A landsliðs karla í úrslitakeppni EM 2016 mun hafa mikil áhrif á rekstur KSÍ. Ljóst er, að Knattspyrnusamband Evrópu mun greiða KSÍ 8 milljónir evra (um 1130 m. kr.) vegna þátttökunnar. Fjárhagsáætlun fyrir árið 2016 gerir ráð fyrir hagnaði upp á rúmlega 600 m. kr. Stjórn KSÍ hefur ákveðið að um 300 m. kr. renni til aðildarfélaga KSÍ sem sérstakt EM framlag, auk þess sem barna- og unglingastyrkur mun hækka um 30% og styrkur vegna leyfiskerfis mun hækka um 15%.

 Rekstur skrifstofu KSÍ hefur verið í föstum skorðum en þó urðu nokkrar breytingar í mannahaldi. Hæst ber auðvitað að Þórir Hákonarson framkvæmdastjóri KSÍ til átta ára ákvað að láta staðar numið og ákvað stjórn KSÍ í framhaldinu að ráða Klöru Bjartmarz framkvæmdastjóra. Þórir var öflugur og dugmikill framksvæmdastjóri og samstarfið við hann var afar gott. Hann á þakkir skildar fyrir sín miklu störf fyrir íslenska knattspyrnu. Í skarð Klöru í mótadeild var ráðinn Haukur Hinrikson, lögfræðingur og þá var aukið við einum starfsmanni þegar Gunný Gunnlaugsdóttir var ráðinn í málefni landsliða. Ég vil nota tækifærið og bjóð þau velkomin til starfa og þakka starfsfólki KSÍ fyrir frábær störf á starfsárinu.

Árið 2017 verða liðin 70 ár frá stofnun Knattspyrnusambands Íslands. Að því tilefni hefur stjórn KSÍ fengið Sigmund Ó. Steinarsson til að rita sögu kvennaknattspyrnunnar á Íslandi. Þar með lýkur heildarritun allrar sögu íslenskrar knattspyrnu en áður hefur KSÍ gefið út 4 bækur því tengdu á undanförnum árum. Sögunni er viðhaldið og heimildirnar um íslenska knattspyrnu varðveittar. Á afmælisárinu mun KSÍ halda Norðurlandamót drengjalandsliða og er gert ráð fyrir að riðlarnir tveir fari fram á Suðurlandi og Suðurnesjum.

Ólga innan FIFA sem hefur teygt anga sína inn í UEFA hefur ekki farið framhjá neinum. Vonandi hefjast nýir og betri tímar eftir kosningu forseta FIFA 26. febrúar nk. Stjórn KSÍ hefur lýst yfir stuðningi við framkvæmdastjóra UEFA, Gianni Infantino, í kjörinu og væntanlega mun Evrópa í heild sinni styðja hann. Menn vona að forseti UEFA, Michel Platini, nái að sanna sakleysi sitt og snúi til baka og hefur framkvæmdastjórn UEFA ákveðið að bíða niðurstöðu áfrýjunar í máli hans.

Eitt besta ár í sögu KSÍ er að baki. Minningarnar eru margar um sigra og skemmtilegar stundir á vellinum og stuðningur áhorfenda  var einstakur. Krafturinn og dugnaðurinn í forystufólki íslenskra knattspyrnu er einstakur. Þið eigið hrós skilið fyrir ykkar miklu og óeigingjörnu störf.

Stjórn KSÍ þakkar ykkur forystufólk íslenskrar knattspyrnu fyrir frábær störf á starfsárinu og fyrir gott samstarf. Það er fyrir ykkar miklu störf sem knattspyrnuhreyfingin á Íslandi uppskar svo ríkulega og stendur eins sterk og raun ber vitni. Við óskum ykkur gæfu á komandi keppnistímabili.

Ársþing KSÍ er vettvangur til umræðu og breytinga. Við hittumst hér til að ræða saman formlega, en ekki síður til þess að spjalla saman með óformlegum hætti. Staða íslenskrar knattspyrnu er sterk þegar ég segi 70. ársþing Knattspyrnusambands Íslands sett."