• mán. 04. jún. 2018
  • Dómaramál

Vilhjálmur Alvar Þórarinsson hækkaður upp um flokk á dómaralista UEFA

Eftir frábæra frammistöðu á lokakeppni EM U17 hefur Vilhjálmur Alvar Þórarinsson verið hækkaður upp í flokk 2 á UEFA lista dómara. Flokkarnir eru alls 4, elite, 3, 2 og 1.

Þetta er mikil viðurkenning fyrir Vilhjálm því horft er til dómara í öllum aðildarlöndum FIFA þegar tekin er ákvörðun um hækkun um flokk og eru margir um hituna, en fáir útvaldir.

Hækkun þýðir meira krefjandi leikir á alþjóðegum vettvangi svo það er ljóst að spennandi tímar eru framundan hjá Vilhjálmi. KSÍ settist niður með Vilhjálmi á dögunum.

Hvað varð til þess að þú ákvaðst að gerast dómari?

,,Á sínum tíma þá tók maður dómaraprófið til þess að fá frítt á völlinn, en ég fann það samt strax í byrjun að þetta átti vel við mig. Ég hafði alltaf gaman af því að dæma og passaði mig ávallt á því að leggja mig fram strax frá byrjun, sama hver leikurinn var. Ég var það heppinn að vera sendur í hæfileikamótun KSÍ ungur að árum og fékk þar hellings kennslu sem er eitthvað sem allir dómarar sem eru að byrja þurfa að fá. Ég þurfti að velja þegar ég var orðinn landsdómari hvort ég vildi spila eða gerast dómari og það val var ansi auðvelt, spila í neðri deildum eða eiga möguleika að dæma í stórum leikjum erlendis. Eftir að ég tók þessa ákvörðun gerðust hlutirnir hratt og tveimur árum eftir að ég er orðinn landsdómari dæmi ég í efstu deild.'' 

Hvað gerir svona verkefni fyrir þig, bæði fyrir sjálfstraustið og svo upp á framtíðina að gera?

,,Það var mikill heiður að fá þetta verkefni og eitthvað sem maður stefndi að. Það er eitthvað sem ekki margir átta sig á hvað það fer mikill tími í að ná langt í þessu, allar æfingarnar, leikirnir, ferðalögin og undirbúningurinn fyrir leiki. Að vera valinn á þetta mót var ákveðin viðurkenning á því sem maður hefur lagt á sig. Þetta mót er leiðin fyrir dómara sem koma ekki frá stóru þjóðunum að sýna hæfieika sína fyrir framan þá sem ráða dómaramálum innan UEFA. Þeir sem eru valdir á þetta mót eru dómarar sem hafa verið að standa sig vel í Evrópuverkefnum og UEFA vill skoða betur til þess að meta hvort þeir séu hæfir í að dæma í leikjum í Evrópudeildinni eða jafnvel Meistaradeildinni á næstu árum.''

,,Það voru 8 dómarar sem voru valdir úr hópi 120 dómara sem eru í þeim styrkleikaflokki sem hægt var að velja úr. Þannig að þetta er mikill heiður og stórt tækifæri fyrir mig. Það sem er líka frábært við þetta mót er að þarna koma saman dómarar og aðstoðardómarar frá 20 mismunandi löndum og félagsskapurinn er eitt af því sem stendur upp úr.''

Nú dæmdir þú stóra leiki á mótinu, t.a.m. leik Englands og Ítalíu og undanúrslitaleik Ítalíu og Belgíu? Hvernig var að upplifa slíkt? Er þetta með stærstu leikjum sem þú hefur dæmt?

,,Að dæma á svona móti er mikil upplifun. Þetta er eitt af 4 stórum mótum sem UEFA heldur hjá landsliðum og það var virkilega vel staðið að öllu. Ekki skemmdi fyrir að mótið var haldið í mekka fótboltans, Englandi, og þeir vita alveg hvernig á að halda slík mót. Maður fann fyrir því að maður var að dæma á stóru móti og var margt líkt með framkvæmd leikjanna eins og maður hefur séð í Evrópudeildarleikjum.'' 

,,Það var mikill heiður að fá að dæma leika Englands og Ítalíu og hvað þá undanúrslitin milli Ítalíu og Belgíu. Báðir þessir leikir voru frábær upplifun, ekki síst vegna gæðanna hjá leikmönnunum og fannst manni oft ansi magnað að þetta eru bara 17 ára strákar. Undanúrslitaleikurinn var gríðarlega skemmtilegur. Tvö virkilega góð lið sem ég var búinn að dæma hjá áður á mótinu þannig að ég vissi nokkurn veginn að hverju ég var að ganga. Tvö flott lið og ég starfaði með aðstoðardómurum sem voru góðir félagar mínir þarna úti. Leikirnir gengu vel og við gengum sáttir frá borði.'' 

,,Þessir leikir eru kannski ekki þeir stærstu sem ég hef dæmt en þeir voru klárlega þeir mikilvægustu á mínum ferli. Ég hef verið svo heppinn að starfa í nokkrum mjög skemmtilegum verkefnum og ber helst að nefna síðasta A-landsleik Spánverja fyrir EM 2016 og vera endalínudómari á Celtic Park er ansi ofarlega í huga. Held að í þeim leik hafi ég fengið upplifunina að ég ætla að leggja allt það sem ég get til þess að komast á þennan stað.'' 

Hver eru þín markmið upp á framtíðina að gera sem dómari?

,,Markmiðin eru að koma sér upp um styrkleikaflokk innan UEFA og í kjölfarið komast í það að fá verkefni í riðlakeppni Evrópudeildarinnar. Þetta eru raunhæf markmið ef ég held áfram á þeirri braut sem ég er á, en samkeppnin er hörð og til þess að eiga séns þarf ég að halda áfram að bæta mig og leggja mig fram. Ég vona að á næstunni munum við sjáum íslenskan dómara í riðlakeppni Evrópudeildarinnar, hvort sem það verður ég, Þorvaldur eða einhver annar. Það er fyrsta skrefið að einhverju meiru.''