• lau. 28. júl. 2018
  • Mótamál
  • félagaskipti

Félagaskiptaglugginn lokar þriðjudaginn 31. júlí

Forráðamönnum félaga er sérstaklega bent á að vera vel tímanlega í því ef reyna á að fá félagaskipti erlendis frá

Þriðjudagurinn 31. júlí er síðasti dagur félagaskipta og frá og með 1. ágúst eru öll félagaskipti, innanlands og til landsins óheimil.  Fullfrágengin félagaskipti þurfa að hafa borist skrifstofu KSÍ fyrir miðnætti þriðjudaginn 31. júlí.

Félagaskipti innanlands

Fullfrágengin félagaskipti innanlands þurfa að hafa borist skrifstofu KSÍ fyrir miðnætti þriðjudaginn 31. júlí. Ef þau berast síðar verður keppnisleyfi veitt frá 21. febrúar (athugið sérákvæði um samningslausa leikmenn yngri flokka). Forráðamenn félaga eru hvattir til þess að ganga tímanlega frá félagaskiptum.

Póstfang félagaskiptadeildar er felagaskipti@ksi.is.  Mikilvægt er að senda greiðslukvittun á sama póstfang ef greitt er fyrir félagaskiptin í gegnum heimabanka. 

Félagaskipti erlendis frá

Forráðamönnum félaga er sérstaklega bent á að vera vel tímanlega í því ef reyna á að fá félagaskipti erlendis frá. Búast má við að þau félagaskipti taki töluverðan tíma að ganga í gegn og því fyrr sem er farið af stað með þau, því líklegra er að þau gangi í gegn fyrir lokun félagaskiptagluggans.  Ef að leikmenn eru utan EES svæðisins þá verður að fylgja staðfesting frá Útlendingastofnun á atvinnu- og dvalarleyfi áður en hægt er að hefja félagskiptaferlið.

Ef að fullfrágengin beiðni berst skrifstofu KSÍ, um félagaskipti erlendis frá, fyrir miðnætti þriðjudagsins 31. júlí geta liðið allt að 7 dögum þar til keppnisleyfi getur verið gefið út eins og kemur fram í grein 15. 4 í reglugerð KSÍ um félagaskipti:

„15.4. Almennt skal gilda, að leikmaður fær keppnisleyfi frá og með tilteknum degi hafi fullfrágengin tilkynning um félagaskiptin borist til skrifstofu KSÍ fyrir miðnætti daginn áður, en þó verður tilkynning sem berst um helgi eða á frídegi að öllu jöfnu afgreidd næsta virka dag á eftir og keppnisleyfi gefið út frá og með þeim degi. Berist tilkynning um félagaskipti undirrituð af leikmanni og félagi sem gengið er í, fyrir miðnætti á lokadegi félagaskiptatímabils skal íslensku félagi sem gengið er úr gefinn einn virkur dagur til að ganga frá félagaskiptunum með undirritun. Keppnisleyfi með nýju félagi getur því tekið gildi í slíkum tilfellum nokkrum dögum eftir að félagaskiptatímabili lýkur en við útgáfu slíks keppnisleyfis ber að gæta þess að a.m.k. tveir dagar líði á milli leikja hjá leikmanninum. Þegar félagið sem gengið er úr er erlent skulu reglur FIFA gilda og getur keppnisleyfi verið gefið út allt að 7 dögum frá lokadegi félagaskiptatímabils.“

Tímabundin félagaskipti

Ef um tímabundin félagaskipti er að ræða verður að senda eyðublaðið „Tímabundin félagaskipti“ fullfrágengið. Einnig verður að koma lánssamningur á milli félaga, undirritaður af öllum aðilum (þ.e. báðum félögum og leikmanni). Einungis samningsbundnir leikmenn geta haft tímabundin félagaskipti. Þá er minnt á að ef leikmaður er lánaður í þessum glugga, fær hann ekki keppnisleyfi að nýju með móðurfélagi fyrr en 16. október.