• lau. 15. sep. 2018
  • Mótamál

Stjarnan Mjólkurbikarmeistari karla!

Stjarnan er Mjólkurbikarmeistari karla eftir sigur í vítaspyrnukeppni gegn Breiðablik. Leikurinn var markalaus eftir bæði venjulegan leiktíma og framlengingu, en það var Stjarnan sem reyndist öruggari á vítapunktinum.

Leikurinn fór rólega af stað og fátt var um færi. Fyrsta færið leit dagsins ljós eftir sjö mínutur, en þá fékk Gísli Eyjólfsson frítt skot fyrir utan teiginn en skot hans fór yfir markið. Sex mínútum síðar tókst Stjörnunni að hreinsa boltann eftir smá darraðadans í teig sínum eftir hornspyrnu.

Bæði liðin reyndu að sækja, Breiðablik var ívið meira með boltann en Stjarnan var ávallt hættulegt í skyndisóknum sínum. Gísli Eyjólfsson var ekki langt frá því að komast í opið færi fyrir Blika, en Haraldur Björnsson var fljótur út úr markinu og bjargaði Stjörnunni. 

Besta færi fyrri hálfleiksins kom síðan í lok hans. Þórarinn Ingi Valdimarsson átti þá frábæra sendingu á Baldur Sigurðsson sem var einn í teignum en Gunnleifur Gunnleifsson varði skot hans frábærlega. Staðan markalaus í hálfleik og bæði lið í erfiðleikum með að skapa sér færi.

Það tók hins vegar aðeins um fjórar mínútur að skapa fyrsta færi seinni hálfleiksins. Oliver Sigurjónsson átti þá fínt skot sem fór rétt framhjá marki Stjörnunnar. Aðeins um mínútu síðar var það Gunnleifur Gunnleifsson sem varði skot Jóhanns Laxdal. Einni mínútu eftir það fékk svo Breiðablik gullið tækifæri til að komast yfir. Haraldur Björnsson missti af boltanum í marki Stjörnunnar, Gísli Eyjólfsson var við það að komast í gott færi en Daníel Laxdal bjargaði með frábærri tæklingu.

Breiðablik var betri aðilinn í fyrri hluta síðari hálfleiks og á 73. mínútu komst Thomas Mikkelsen einn á móti Haraldi Björnssyni í marki Stjörnunnar sem varði frábærlega frá þeim fyrrnefnda. Aðeins þremur mínútum síðar var það Guðjón Baldvinsson sem komst í gott færi, en skot hans fór framhjá. 

Þegar um sex mínútur voru eftir af síðari hálfleiknum fékk Baldur Sigurðsson frábært færi og hefði vel getað komið Stjörnunni yfir. Baldur náði þá skoti í markteignum en Gunnleifur Gunnleifsson varði hreint út sagt frábærlega í marki Blika.

Á 90. mínútu voru það síðan Blikar sem hefðu auðveldlega geta tekið forystuna. Arnþór Ari Atlason átti þá góða fyrirgjöf fyrir markið, Brynjar Gauti Guðjónsson kom sér fyrir boltann og hann stefndi í netið, en Haraldur Björnsson bjargaði frábærlega. 

Staðan markalaus þegar flautað var til leiksloka og því þurfti að grípa til framlengingar.

Lítið markvert gerðist í fyrri hálfleik framlengingarinnar, en besta færi hans var án efa aukaspyrna Hilmars Árna Halldórssonar, en Gunnleifur Gunnleifsson varði vel í marki Blika. 

Í síðari hálfleik var Guðmundur Steinn Hafsteinsson nálægt því að koma sér í frábært skotfæri í vítateig Blika, en hann náði ekki að koma skoti á markið. Þegar um fimm mínútur voru eftir af leiknum komst Arnór Gauti Ragnarsson í fínt færi, en Haraldur Björnsson varði vel í marki Stjörnunnar.

Stjarnan hefði getað klárað leikinn í lok hans. Baldur Sigurðsson fékk fyrst frábært færi í vítateignum en skot hans fór yfir. Stuttu síðar átti Ævar Ingi Jóhannesson skalla sem Gunnleifur Gunnleifsson varði ótrúlega, boltinn datt þá fyrir Sölva Snæ Guðbjargarson, en skot hans endaði í stönginni. Strax eftir það var flautað af og við í leið í vítaspyrnukeppni.

Það var svo Stjarnan sem voru öruggari á punktinum og sigruðu vítaspyrnukeppnina 4-1. Til hamingju Stjarnan!