• fös. 28. jún. 2019
  • Mótamál
  • Mjólkurbikarinn

Þrjú fyrrum bikarmeistaralið í 8-liða úrslitum

Í kvöld hefjast 8 liða úrslitin í Mjólkurbikar kvenna þegar KR mætir Tindastóli og ÍA mætir Fylki. ÍA og Fylkir eiga að baki fimmtán viðureignir frá árinu 2004 – í efstu tveimur deildunum og í Lengjubikarnum, en hafa aldrei áður mæst í bikarkeppninni. KR og Tindastóll hafa aðeins einu sinni áður mæst í meistaraflokki kvenna, en það var í úrslitaleik C-deildar Lengjubikarsins árið 2014, þar sem KR hafði 3-0 sigur.  KR og ÍA hafa hvort um sig unnið bikarkeppni kvenna fjórum sinnum - KR síðast 2008 en ÍA vann bikarinn síðast árið 1993.

Tveir leikir eru á dagskrá á laugardag, þegar Þór/KA mætir Val og Selfoss mætir HK/Víkingi. Þór/KA og Valur mættust síðast í undanúrslitum bikarkeppninnar árið 2010. Staðan var 0-0 í hálfleik en í seinni hálfleik hafði Valur betur og Kristín Ýr Bjarnadóttir skoraði þrjú mörk á 18 mínútum. Valur fór alla leið í bikarnum þetta árið og lagði Stjörnuna í úrslitaleiknum á Laugardalsvelli.  Þór/KA hefur einu sinni leikið til úrslita í bikarkeppninni, en það var árið 2013, þegar liðið beið lægri hlut gegn núverandi Mjólkurbikarmeisturum Breiðabliks.  Valur hefur hins vegar unnið bikarkeppni kvenna oftar en nokkurt annað lið, eða 13 sinnum, síðast 2011.

Selfoss og HK/Víkingur hafa mæst 16 sinnum á síðustu 10 árum í meistaraflokki kvenna og hafa leikir liðanna verið jafnir og spennandi. Selfoss hefur unnið sjö sinnum, HK/Víkingur sex sinnum og þrír leikir enduðu með jafntefli.  HK/Víkingur hefur aldrei náð í úrslitaleik bikarkeppni kvenna.  Selfoss náði þangað árið 2015 og beið þá lægri hlut fyrir Stjörnunni.

Skoða fyrri viðureignir

Framtíðin er heldur betur björt í kvennaboltanum þar sem mikið er um unga og efnilega leikmenn. Við fylgjumst spennt með leikjum helgarinnar og hvetjum fólk til að mæta á völlinn og styðja við bakið á stelpunum okkar!

Skoða leikina í Mjólkurbikar kvenna

Dregið verður í undanúrslit í Mjólkurbikarnum í hádeginu á mánudag.