• mán. 08. júl. 2019
  • Landslið
  • U16 kvenna

U17 kvenna hafnaði í 4. sæti á Opna NM

U17 landslið kvenna lauk í dag, mánudag, keppni á Opna Norðurlandamótinu, sem fram fór í Bohuslän í Svíþjóð.  Ísland mætti gestgjöfunum, Svíum, í leik um 3. sætinu á mótinu og beið lægri hlut í vítaspyrnukeppni eftir hörkuspennandi og jafnan leik.  Þar sem hvorugt liðið sem leikur til úrslita, þ.e. Þýskaland og England, kemur frá Norðurlöndunum, þá var viðureign Svíþjóðar og Íslands eiginlegur úrslitaleikur um það hvort liðið teldist Norðurlandameistari. 

Fyrsta mark leiksins var íslenskt og var þar að verki Amanda Jacobsen Andradóttir.  Þetta reyndist eina mark fyrri hálfleiks og leiddi Ísland því í hálfleik.  Sænska liðið hafði þó fengið tækifæri til að jafna metin, en Cecilía Rán Rúnarsdóttir varði vítaspyrnu.  Svíar byrjuðu seinni hálfleik af miklum krafti og voru búnir að jafna leikinn eftir aðeins 24 sekúndur.  Jafnræði var með liðunum eftir þetta og fengu bæði lið ágætis tækifæri til að skora mörk.  Sænska liði varð þó fyrra til og náði forystu með marki á 82. mínútu, en íslensku stúlkurnar lögðu ekki árar í bát og Hildigunnur Ýr Benediktsdóttir skoraði jöfnunarmark á 90. mínútu.

Því var ljóst að vítaspyrnukeppni þurfti til að knýja fram úrslit.  Þar hafði sænska liðið betur í bráðabana og 4. sætið í mótinu því hlutskipti íslenska liðsins og sænska liðið fagnaði Norðurlandameistaratitli.

Smellið hér til að skoða fréttir af mótinu á vef KSÍ.  Einnig er bent á Facebook-síðu KSÍ þar sem sjá fjölmargar myndir og myndskeið.