• fim. 07. nóv. 2019
  • Landslið
  • U19 kvenna

U19 kvenna - 2-0 sigur gegn Svíþjóð

Ísland vann 2-0 sigur gegn Svíþjóð í síðari vináttuleik liðanna, en leikið var í Egilshöll. Sveindís Jane Jónsdóttir og Karólína Lea VIlhjálmsdóttir skoruðu mörk Íslands.

Ísland byrjaði leikinn frábærlega og eftir aðeins tvær mínútur hafði fyrsta mark leiksins litið dagsins ljós. Sveindís Jane Jónsdóttir komst þá í gegn og skoraði með góðu skoti. Þær héldu áfram að setja góða pressu á vörn Svía og tíu mínútum síðar komst Karen María Sigurgeirsdóttir ein í gegn, en skot hennar fór framhjá.

Leikurinn róaðist eftir þetta, bæði lið héldu boltanum ágætlega þegar þau höfðu tækifæri til þess, en fá færi voru sköpuð. Eva Rut Ásþórsdóttir og Sveindís Jane komust í ágætis færi þegar líða tók á hálfleikinn, skot Evu fór yfir á meðan markvörður Svía varði frá Sveindísi. Staðan því 1-0 þegar flautað var til hálfleiks.

Tvær skiptingar voru gerðar í hálfleik. Eva Rut og Hafrún Rakel Halldórsdóttir fóru útaf, en inn á komu þær Arna Eiríksdóttir og Helena Ósk Hálfdánardóttir.

Ísland byrjaði síðari hálfleikinn einnig vel og í upphafi hans átti Sveindís Jane góðan sprett upp völlinn, sendi boltann fyrir þar sem Ída Marín Hermannsdóttir var mætt, en skot hennar fór framhjá. Stuttu síðar átti Arna skot rétt framhjá.

Þegar um hálftími var eftir af leiknum fóru Ída Marín og Karen María útaf, en inn komu Clara Sigurðardóttir og Linda Líf Boama. Stutu síðar kom annað mark leiksins, en það var Karólína Lea Vilhjálmsdóttir sem skoraði það eftir að hafa leikið á varnarmann Svía og sett boltann af öryggi í markhörnið fjær.

Á 70. mínútu kom Ísabella Anna Húbertsdóttir inn á fyrir Kötlu Maríu Þórðardóttur. Fimm mínútum síðar átti Helena Ósk skot að marki Svía eftir góða skyndisókn, en það var varið. Stuttu síðar átti Sveindís Jane fast skot að marki, en það var vel varið. 

Þegar um tíu mínútur voru eftir af leiknum fór Ísabella Anna útaf, en inn á kom Valgerður Ósk Valsdóttir.

Leikurinn var nokkuð jafn síðustu tíu mínúturnar, en ekki voru skoruð fleiri mörk og því 2-0 sigur hjá Ísland staðreynd.