• mið. 17. jún. 2020
  • Landslið
  • U17 kvenna
  • U19 karla
  • U21 karla

Milliriðlar EM U17 kvenna og U19 karla í september

Á fundi stjórnar Knattspyrnusambands Evrópu (UEFA) 17. júní voru teknar ákvarðandi um framhald móta yngri landsliða frá keppnistímabilinu 2019/2020.  Meðal ákvarðana sem snúa að íslenskum landsliðum eru leikjagluggar fyrir milliriðla U17 kvenna og U19 karla.  Einnig voru áður útgefnar dagsetningar leikja í undankeppni EM U21 karla staðfestar sem óbreyttar.

  • Undankeppni EM U21 karla sem hófst haustið 2019 klárast með áður útgefnum og staðfestum leikdögum í september, október og nóvember 2020. Fyrirkomulagi úrslitakeppninnar hefur verið breytt og fer hún nú fram í tveimur lotum. Efsta lið hvers af riðlunum níu, ásamt fimm liðum með bestan árangur í öðru sæti og gestgjöfum Ungverjalands og Slóveníu, munu leika í fjórum fjögurra liða riðlum dagana 24.-31. mars 2021 (riðlarnir verða leiknir í Slóveníu og Ungverjalandi). Efstu tvö lið hvers riðils leika í 8 liða úrslitakeppni (útsláttarkeppni) dagana 31. maí – 6. júní 2021, í Ungverjalandi og Slóveníu.
  • Milliriðill EM U17 kvenna verður leikinn dagana 12.-20. september, og úrslitakeppni 8 liða (útsláttarkeppni) 8.-14. október í Svíþjóð. Þessi keppni gildir sem undankeppni fyrir HM U17 kvenna.
  • Milliriðill EM U19 karla verður leikinn 31. ágúst – 8. september. Úrslitakeppnin fer síðan fram í tveimur lotum. Fyrst riðlakeppni á Norður-Írlandi dagana 31. ágúst til 8. september (tveir fjögurra liða riðlar), þar sem efstu tvö lið hvors riðils komast í úrslitakeppnina, og liðin í þriðja sæti riðlanna leika umspilsleik um það hvort liðið verður fimmta Evrópuliðið í úrslitakeppni HM U20. Leikirnir í seinni lotunni leikir fara fram á Norður-Írlandi dagana 9.-18. nóvember.

Nákvæmar dagsetningar leikja í milliriðlum U17 kvenna og U19 karla verða gefnar út síðar og birtar eins fljótt og mögulegt er.

Fréttatilkynning UEFA

Mynd með grein: Hafliði Breiðfjörð, Fótbolti.net