• lau. 01. ágú. 2020
  • COVID-19
  • Mótamál

KSÍ fundar með yfirvöldum eftir helgina

Eins og fram hefur komið óskaði ÍSÍ fyrir hönd íþróttahreyfingarinnar eftir nánari útlistun frá sóttvarnarlækni varðandi íþróttastarfsemi fullorðinna vegna reglna sem tóku gildi á hádegi 31. júlí og fékk til baka eftirfarandi tilmæli:

  1. Að gert verði hlé á æfingum og keppni í íþróttum með snertingu til 13. ágúst næstkomandi eða þar til núgildandi auglýsing um takmarkanir á samkomum fellur úr gildi. 
  2. Að æfingar og keppni í íþróttum án snertingar haldi áfram eftir því sem hægt er, að virtum reglum um fjöldatakmarkanir og nálægðarmörk skv. auglýsingu heilbrigðisráðherra.
  3. Að sameiginlegur búnaður verði sótthreinsaður milli notkunar/notenda.

Jafnframt hvatti ÍSÍ íþróttahreyfinguna til að fara að tilmælum heilbrigðisyfirvalda og að viðhafa allar nauðsynlegar sóttvarnir.

Skoða nánar

KSÍ tekur undir með ÍSÍ og ítrekar til aðildarfélaga að ekki sé æft með snertingu iðkenda í eldri aldursflokkum (meistaraflokki og 2. flokki), að tveggja metra reglan sé virt eins og mögulegt er og æft án snertingar einstaklinga.

KSÍ mun funda með yfirvöldum strax eftir helgina, eins og fram kemur í fundargerð stjórnar frá 30. júlí, og stjórn sambandsins mun koma saman í kjölfarið og upplýsa frekar um stöðu mála.

Vegna fjölda fyrirspurna vill KSÍ taka fram að málefni 3. flokks er sérstaklega til skoðunar.

Knattspyrnuhreyfingin er hluti af samfélaginu. Það er skylda allra (leikmanna og starfsmanna liða, forsvarsmanna félaga, áhorfenda og annarra þátttakenda í knattspyrnu) að sýna ábyrgð og gæta að sóttvörnum í knattspyrnustarfinu og þar með í okkar samfélagi. Hjálpumst að, sýnum yfirvegun og samstöðu og komumst í gegnum þetta saman.

Covid-19 tengdar fréttir og tilkynningar á vef KSÍ

Tilmæli KSÍ vegna Covid-19