• mán. 05. okt. 2020
  • Landslið
  • A karla
  • COVID-19

Miðasala á októberleiki A landsliðs karla

Miðasala á leiki A landsliða karla í október hefst á Tix.is eins og greint er frá hér að neðan. Hámarksfjöldi áhorfenda, hólfun og sóttvarnahólf eru í samræmi við gildandi lög og reglur og ljóst að færri komast að en vilja. Hámarksfjöldi áhorfenda á leikjunum þremur í október er um eitt þúsund. KSÍ-skírteini gilda ekki á leikina.

Miðasölunni fyrir hvern leik er skipt upp í þrjú þrep. Í fyrsta þrepi miðasölu verður ársmiðakaupendum* sem keyptu miða á Rúmeníu-leikinn boðið að kaupa miða, í öðru þrepi bætast við haustmiðakaupendur** sem keyptu miða á Rúmeníu-leikinn og í þriðja þrepi verður opnað fyrir almenna sölu. Seljist miðar upp í tilteknu þrepi verður ekki opnað fyrir þrepin þar á eftir. Miðakaupendur sem eiga rétt á að kaupa miða í hverju þrepi fá sendan tölvupóst frá miðasölukerfi Tix með viðeigandi upplýsingum og hlekk. Fólk er hvatt til að fylgjast með sínum pósthólfum (munið að skoða „junk mail“).

*Kaupendur ársmiða keyptu miða á alla heimaleiki Íslands í undankeppninni fyrir EM 2020.
**Kaupendur haustmiða keyptu miða á alla heimaleiki Íslands haustið 2019 í sérstökum haustpakka.

Ísland-Rúmenía

  1. 6. október kl. 12:00 á Tix.is – Miðasala opnar fyrir þá sem keyptu ársmiða á undankeppni EM 2020 og keyptu miða á Ísland-Rúmenía í fyrri sölu.
  2. 7. október kl. 12:00 á Tix.is – Miðasala fyrir þá sem keyptu haustmiða 2019 og keyptu miða á Ísland-Rúmenía í fyrri sölu (ef ekki orðið uppselt).
  3. 8. október kl. 12:00 á Tix.is – Almenn miðasala (ef ekki orðið uppselt).

Ísland-Danmörk

  1. 9. október kl. 12:00 á Tix.is – Miðasala fyrir þá sem keyptu ársmiða á undankeppni EM 2020 og keyptu miða á Ísland-Rúmenía í fyrri sölu.
  2. 10. október kl. 12:00 á Tix.is – Miðasala fyrir þá sem keyptu haustmiða 2019 og keyptu miða á Ísland-Rúmenía í fyrri sölu (ef ekki orðið uppselt).
  3. 11. október kl. 12:00 á Tix.is – Almenn miðasala (ef ekki orðið uppselt).

Ísland-Belgía

  1. 12. október kl. 12:00 á Tix.is – Miðasala fyrir þá sem keyptu ársmiða á undankeppni EM 2020 og keyptu miða á Ísland-Rúmenía í fyrri sölu.
  2. 13. október kl. 12:00 á Tix.is – Miðasala fyrir þá sem keyptu haustmiða 2019 og keyptu miða á Ísland-Rúmenía í fyrri sölu (ef ekki orðið uppselt).
  3. 14. október kl. 12:00 á Tix.is – Almenn miðasala (ef ekki orðið uppselt).

350 miðar í almenna sölu – 100 miðar til Tólfunnar

Eins og fram kemur hér að ofan komast umtalsvert færri að en vilja á leiki A landsliðs karla í október, af vel þekktum ástæðum. Alls fara 350 miðar á hvern leikjanna þriggja í almenna sölu, og því til viðbótar fara 100 miðar í sölu til Tólfunnar. Samanlagt er þetta um það bil sama hlutfall heildarsætafjöldans og fer í sölu þegar ekki eru fjöldatakmarkanir, eða rétt um helmingur. Samstarfsaðilar KSÍ, samstarfsaðilar UEFA, sjónvarpsrétthafar og aðrir fá þannig sama hlutfall af samningsbundnu framboði miða – rétt er að taka fram að allt eru þetta miðar sem viðkomandi aðilar hafa þegar greitt fyrir. Frávikið frá hlutfallsreglunni að þessu sinni er þó miðarnir 100 sem eru fráteknir fyrir Tólfuna, sem eru hlutfallslega fleiri en á venjulegan leik. Tólfan gegnir lykilhlutverki á landsleikjum og hlutfall miða til Tólfunnar á þessum leik endurspeglar það.

KSÍ hefur rýnt allar hliðar á lögum og reglum UEFA og íslenskra yfirvalda um fjöldatakmarkanir og sóttvarnir m.t.t. áhorfenda á komandi landsleikjum og miðasölu á þá. Hólfa þarf leikvanginn niður og taka mið af stærð hólfa (fermetrar og sætafjöldi), fjölda mögulegra inngönguhliða, salernisaðstöðu, veitingasölu, o.s.frv. Misjafnt er hversu mörg sæti er hægt að nýta í hverju hólfi.

Við miðakaup þarf kaupandinn að samþykkja sérstaka skilmála. Meðal þess sem þar kemur fram er hver áhorfandi skal notast við andlitsgrímu allan tímann, að viðhalda og virða þurfi viðeigandi fjarlægðarmörk milli einstaklinga sem ekki eru í nánum tengslum, að fylgja sætaskipan, og að ekki sé heimilt að hafa meðferðis hvers kyns töskur eða poka (t.d. handtöskur, bakpoka eða annað).

Mynd: Hafliði Breiðfjörð, Fótbolti.net