• þri. 18. apr. 2023
  • Mótamál
  • Meistarakeppnin

Stjarnan fyrst til að vinna Svanfríðarbikarinn

Mynd með grein:  Hulda Margrét.

Stjarnan fagnaði sigri í Meistarakeppni KSÍ þegar liðið mætti Íslands- og bikarmeisturum Vals á Origo-vellinum á mánudag. 

Markalaust var eftir venjulegan leiktíma þrátt fyrir ágætis færi á báða bóga og því þurfti vítaspyrnukeppni til að útkljá úrslit.  Þar hafði Stjarnan betur, er því meistari meistaranna 2023 og þar með fyrsta liðið til að taka á móti Svanfríðarbikarnum.

Í Meistarakeppni kvenna 2023 var í fyrsta skiptið keppt um Svanfríðarbikarinn, nýjan farandbikar til heiðurs Svanfríði Guðjónsdóttur. Svanfríður hefur unnið ötullega að uppbyggingu knattspyrnu kvenna á Íslandi. Hún var fyrsta konan sem kjörin var í stjórn Knattspyrnusambands Íslands en hún hafði starfað í kvennanefnd KSÍ áður en hún var kosin í stjórn. Svanfríður vann mikið með landsliði kvenna í knattspyrnu um árabil, útvegaði æfingaleiki og var því til halds og trausts á ýmsan hátt. Einnig starfaði hún mikið í kringum kvennaknattspyrnuna í Breiðabliki á fyrstu árum hennar en dóttir hennar spilaði á þeim árum með Breiðabliki og einnig með landsliðinu. Svanfríður var meðlimur í Umbótanefnd ÍSÍ fyrir konur í íþróttum um árabil og vann þar frábært starf að hagsmunamálum kvenna í íþróttahreyfingunni.