• fös. 11. ágú. 2023
  • Mótamál
  • Mjólkurbikarinn

Víkingur R. Mjólkurbikarmeistari kvenna 2023

Víkingur R. er Mjólkurbikarmeistari kvenna árið 2023 eftir 3-1 sigur gegn Breiðablik í úrslitaleik. Er þetta fyrsti bikarmeistaratitill kvennaliðs Víkings.

Víkingur fór vel af stað og náði forystu strax á fyrstu mínútu leiksins þegar fyrirliðinn Nadía Atladóttir kom boltanum í netið. Birta Georgsdóttir jafnaði metin fyrir Breiðablik með marki á 15. mínútu.

Rétt fyrir hálfleik var Nadía aftur á ferðinni þegar hún skoraði annað mark Víkings og sitt annað mark og kom Víkingum í 2-1 forystu rétt fyrir hálfleik.

Varamaðurinn Freyja Stefánsdóttir skoraði þriðja mark Víkings á 87. mínútu eftir að hafa verið á vellinum í nokkrar sekúndur.

Sigur Víkinga er sögulegur því bæði er þetta fyrsti bikarmeistaratitill liðsins og einnig er þetta í fyrsta skiptið sem lið í 1. deild vinnur bikarinn kvenna megin.

Áhorfendur beggja liða voru til fyrirmyndar í dag. Þeir voru 2578 talsins sem er áhorfendamet á bikarúrslitaleik kvenna, fyrra met var 2435 áhorfendur sem mættu á úrslitaleik árið 2015 á milli Stjörnunnar og Selfoss.