• mið. 24. jan. 2024
  • Mótamál

Metár í leikjafjölda

Mótamál KSÍ eru í stöðugri endurskoðun og þróun. Við skipulag mótahalds þarf að huga að gríðarlega mörgum og ólíkum þáttum og áskorunum, bæði þegar kemur að meistaraflokki og öðrum aldursflokkum. Það er ýmislegt sem hefur áhrif, m.a. breyting á keppnisfyrirkomulagi og árangur íslenskra landsliða og félagsliða í alþjóðlegri keppni, svo eitthvað sé nefnt.

Undanfarin ár hefur leikjum í mótum fjölgað jafnt og þétt. Á árinu 2023 voru leiknir 6.080 KSÍ leikir (Íslandsmót, meistarakeppni, bikarkeppni, deildarbikar, landsleikir). Leikirnir hafa aldrei verið fleiri og um er að ræða verulega aukningu, sem þýðir auðvitað aukinn kostnað og fjölgun verkefna í niðurröðun og afleiddum verkefnum hjá KSÍ, og ekki síður hjá félögunum sjálfum. 

Alls tóku 770 keppnislið aðildarfélaga þátt í mótum á vegum KSÍ á árinu sem leið - 504 lið karla og 266 lið kvenna. Þátttökuliðum kvenna fjölgaði um 18 milli ára en karlaliðum fækkaði um 9. Samtals fjölgaði því keppnisliðum um 9 milli ára.

Heildarfjöldi KSÍ leikja

Leikár

2023

2022

2021

2020

2019

2018

2016

2014

2012

2010

2008

Leikir samtals

6.080

5.578

5.319

4.864

5.439

5.333

5.361

5.439

5.403

5.515

4.998

 

KSÍ skipuleggur knattspyrnumót allan ársins hring, þó meginþorri leikjanna fari fram yfir sumartímann. Við leikina í töflunni hér að ofan bætast leikir í Reykjavíkurmótum og Faxaflóamótum, sem eru leikin frá hausti og fram á vor, þar sem samanlagður fjöldi leikja var 2.646 og þar er einnig um að ræða aukningu.

Þessu til viðbótar má auðvitað nefna þann gríðarlega fjölda leikja sem fer fram á yngriflokkamótum á vegum aðildarfélaga KSÍ. Á sumum mótum fara fram tiltölulega fáir leikir meðan á stóru mótunum fara fram yfir 1000 leikir. Talning frá árinu 2022 leiddi í ljós að það ár fóru fram um 16.000 leikir í mótum á vegum félaganna og gera má ráð fyrir að fjöldinn hafi að minnsta kosti verið svipaður á síðasta ári. Á Íslandi fara því fram yfir 24 þúsund leikir á ári, sem gerir tæplega 70 leiki á dag að meðaltali.

Sjá einnig:

Verkefni tengd mótamálum eru unnin að mestu á innanlandssviði á skrifstofu KSÍ.  Á innanlandssviði eru 8 starfsmenn og á meðal verkefna eru niðurröðun leikja og móta, dómaramál, leyfiskerfi, mannvirkjamál, heilindamál, félagaskipti og leikmannasamningar, aga- og kærumál, og málefni umboðsmanna.

Mynd:  Helgi Halldórsson