Kosningar

Kosning formanns og stjórnar til bráðabirgða

Á fundi stjórnar KSÍ þann 29. ágúst sl. ákvað formaður KSÍ að segja af sér og hefur hann þegar látið af störfum. Á fundi stjórnar KSÍ þann 30. ágúst sl. ákvað stjórn, varafulltrúar og landsfjórðungafulltrúar að segja af sér og munu þau skila umboði sínu eigi síðar en þegar til aukaþingsins kemur.

Á aukaþingi þann 2. október nk. verður því kosinn formaður og stjórn til bráðabirgða sem mun starfa fram að næsta knattspyrnuþingi sem haldið verður í febrúar árið 2022. Fulltrúafjöldi hvers aðildarfélags er sá sami og á síðasta knattspyrnuþingi sem haldið var í febrúar 2021. Á aukaþinginu hafa allir kjörnir fulltrúar atkvæðisrétt. Kosning skal fara þannig fram:

  • a. Kosning formanns til bráðabirgða (1 embætti)
  • b. Kosning stjórnar til bráðabirgða (8 embætti)
  • c. Kosning varamanna í stjórn til bráðabirgða (3 embætti)

Þar sem á aukaþinginu verður einvörðungu kosin bráðabirgðastjórn verður ekki kosið um aðalfulltrúa landsfjórðungafulltrúa heldur er ráð fyrir því gert að varamenn hvers fulltrúa fyrir sig taki við réttindum og skyldum þeirra aðalfulltrúa sem ákveðið hafa að segja af sér. Í samræmi við lög KSÍ mun á næsta knattspyrnuþingi, sem haldið verður í febrúar árið 2022, fara fram kosning fulltrúa frá landsfjórðungum, bæði kosning 4ra aðalfulltrúa og 4ra varafulltrúa.

Framboð til stjórnar KSÍ skal skv. 15. gr., sbr. 13. gr. laga KSÍ berast skrifstofu KSÍ skriflega minnst viku fyrir aukaþing eða í síðasta lagi laugardaginn 25. september nk. Kjörnefnd er þó heimilt að samþykkja framboð sem fram kemur síðar ef nægjanlegur fjöldi hefur ekki tilkynnt framboð sitt innan tilkynningarfrests.

Hæfisskilyrði og skrifleg meðmæli

Minnt er á ákvæði í 15. grein laga KSÍ:

15.2.

Þeir sem bjóða sig fram til embætta sem kosið er um samkvæmt grein 15.1. skulu vera lögráða, fjár síns ráðandi og mega ekki á síðustu þremur árum hafa hlotið dóm fyrir refsiverðan verknað samkvæmt almennum hegningarlögum eða lögum um hlutafélög, einkahlutafélög, bókhald, ársreikninga eða skattalögum. Óheimilt er að velja einstaklinga sem vitað er til að hafi hlotið refsidóma vegna brota á ákvæðum XXII. kafla almennra hegningarlaga, nr. 19/1940 til starfa innan íþróttahreyfingarinnar.

15.3.

Sá sem býður sig fram til formanns eða stjórnar skulu hafa skrifleg meðmæli aðildarfélaga sem fara samanlagt með a.m.k. 12 atkvæði á knattspyrnuþingi.

Með tilkynningu um framboð er óskað eftir stuttri ferilskrá til birtingar á heimasíðu KSÍ. Í samræmi við ákvörðun kjörnefndar skulu framboð ásamt skriflegum meðmælum á þar til gerðu eyðublaði, send með tölvupósti til lögfræðings á skrifstofu KSÍ (kolbrun@ksi.is) í síðasta lagi þann 25. september nk.

Framboðsyfirlýsing - Embætti formanns

Framboðsyfirlýsing - Stjórn og varastjórn