• fös. 02. feb. 2001
  • Lög og reglugerðir

Ársreikningur KSÍ 2000 og fjárhagsáætlun

Endurskoðaður ársreikningur KSÍ fyrir starfsárið 2000 liggur nú fyrir og í samræmi við 10. grein laga KSÍ hefur hann verið sendur aðildarfélögum, ásamt fjárhagsáætlun fyrir árið 2001.

Hagnaður varð af heildarrekstri Knattspyrnusambands Íslands árið 2000, alls tæpar 10 milljónir kr. Rekstur sambandsins gekk mjög vel og skilaði regluleg starfsemi KSÍ hagnaði upp á tæpar 23 milljónir kr. en að teknu tilliti til fjármagnsliða var hagnaðurinn 14,4 milljónir kr. Regluleg starfsemi Laugardalsvallar gekk einnig einkar vel og varð rúmlega 6,1 milljón kr. hagnaður af reglulegri starfsemi hans en að teknu tilliti til fjármagnsliða varð 4,5 milljón kr. tap á rekstrinum. Afkoma Laugardalsvallar er mjög háð sveiflum á gjaldeyrismörkuðum vegna erlends láns sem hvílir á vellinum vegna framkvæmda við nýja stúku.

Rekstraráætlanir sambandsins stóðust að stærstum hluta. Útgjöld voru skv. áætlun en tekjur voru meiri en gert var ráð fyrir. Eigið fé KSÍ um síðustu áramót var um 73 milljónir kr.

Skráningargjöld felld niður

Á fundi sínum í gær, fimmtudaginn 1. febrúar, ákvað stjórn KSÍ að fella niður skráningargjöld 2001 í öllum flokkum, í Deildarbikar, Íslandsmótum og bikarkeppnum, alls 7,5 milljónir króna. Stjórn KSÍ vill með þessu láta aðildarfélögin njóta góðs af hagstæðri afkomu sambandsins.