• fim. 15. jún. 2023
  • Agamál
  • Lög og reglugerðir

Dómur áfrýjunardómstóls í máli FH gegn Morten Beck

Áfrýjunardómstóll KSÍ hefur kveðið upp dóm í máli nr. 3/2023 knattspyrnudeild FH gegn Morten Beck Guldsmed. Hefur áfrýjunardómstóll KSÍ staðfest úrskurð aga- og úrskurðarnefndar KSÍ um að knattspyrnudeild FH skuli sæta sekt að upphæð kr. 150.000,-. Þá hefur áfrýjunardómstóll staðfest úrskurð um að knattspyrnulið FH í meistaraflokki karla skuli sæta félagaskiptabanni í eitt félagaskiptatímabil ef ekki er gengið frá uppgjöri í samræmi við niðurstöðu samninga- og félagaskiptanefndar frá 10. ágúst 2022 innan 30 daga frá því að dómurinn er kveðinn upp.

Í niðurstöðukafla dómsins segir m.a.:

„Dómurinn vísar til fyrrgreindrar greinar 28.1.3 reglugerðar KSÍ um félagaskipti, samninga og stöðu leikmanna og félaga um að niðurstaða samninga- og félagaskiptanefndar um ágreiningsefnið sé endanleg og bindandi fyrir deiluaðila. Einnig vísar dómurinn til greinar 28.4. sömu reglugerðar en þar segir að úrskurðir og ákvarðanir samninga- og félagaskiptanefndar séu ávallt endanlegir og bindandi fyrir málsaðila og verði ekki áfrýjað eða skotið til aga- og úrskurðarnefndar KSÍ, áfrýjunardómstóls KSÍ eða annarra dómstóla innan íþróttahreyfingarinnar. Jafnframt skuldbinda málsaðilar sig til að skjóta ágreiningi sem nefndin hefur úrskurðað í ekki til almennra dómstóla. Þessu til viðbótar undirrituðu málsaðilar staðalsamning KSÍ en þar skuldbundu aðilar sig með sama hætti og fram kemur í fyrrgreindum ákvæðum greinargerðarinnar að úrskurður samninga- og félagaskiptanefndar sé endanlegur og bindandi fyrir málsaðila og honum verði ekki áfrýjað til aga- og úrskurðarnefndar KSÍ, áfrýjunardómstóls KSÍ eða annarra dómstóla innan íþróttahreyfingarinnar. Með þessari athugasemd en að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða úrskurðar telur dómurinn að úrskurður samninga- og félagaskiptanefndar dags. 10. ágúst 2022 í ágreiningsmáli málsaðila sé því endanlegur og bindandi fyrir málsaðila og kemur úrskurðurinn því þegar að þeirri ástæðu ekki til endurskoðunar hvorki hjá aga- og úrskurðarnefnd né áfrýjunardómstóli KSÍ.

Með vísan til framangreindra forsendna og að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða úrskurðar aga- og úrskurðarnefndar KSÍ er niðurstaða hins áfrýjaða úrskurðar staðfest er varðar það mat aga- og úrskurðarnefndar að áfrýjandi hafi vanefnt greiðsluskyldu sína skv. úrskurði samninga- og félagaskiptanefndar KSÍ frá 10. ágúst 2022 í meira en 30 daga án þess að hafa samið um greiðslufrest sbr. grein 14.17.3. í reglugerð KSÍ um félagaskipti, samninga og stöðu leikmanna og félaga enda verður ekki séð af fyrirliggjandi gögnum málsins fyrir áfrýjunardómstól KSÍ að knattspyrnudeild FH hafi staðið skil á staðgreiðslusköttum né öðrum launatengdum gjöldum af brúttólaununum hverju sinni eins og kveðið er á um í fyrrnefndum úrskurði samninga- og félagaskiptanefndar KSÍ en skv. úrskurðinum bar félagið ábyrgð á greiðslu skatta og annarra launatengdra gjalda af greiðslum samkvæmt samningnum milli félagsins og leikmannsins. Greiðsluskylda áfrýjanda hefur því verið viðvarandi a.m.k. frá 10. ágúst 2022. Verður því niðurstaða hins áfrýjaða úrskurðar aga- og úrskurðarnefndar um sekt áfrýjanda að fjárhæð kr. 150.000,- samkvæmt grein 14.17.5 c), staðfest. Jafnframt er staðfest niðurstaða hins áfrýjaða úrskurðar aga- og úrskurðarnefndar að áfrýjanda verði gert að sæta félagaskiptabanni í eitt félagaskiptatímabil, skv. grein 14.17.5 d) takist áfrýjanda ekki að sýna fram á að gengið hafi verið frá uppgjöri í samræmi við niðurstöðu samninga- og félagaskiptanefndar frá 10. ágúst 2022 innan 30 daga frá því að dómur þessi er kveðinn upp. Samkvæmt framansögðu en að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða úrskurðar aga- og úrskurðarnefndar verður hann staðfestur eins og nánar er getið í dómsorði.“

Dómur áfrýjunardómstóls KSÍ í máli nr. 3/2023