• sun. 11. maí 2008
  • Pistlar

Velkomin til leiks

Þórir Hákonarson framkvæmdarstjóri KSÍ
Thorir_Hakonarson

Fyrstu leikir Íslandsmótsins í knattspyrnu fara fram um helgina þegar flautað verður til leiks í Landsbankadeild karla og Landsbankadeild kvenna fylgir í kjölfarið þegar fyrsti leikur verður leikinn á mánudag.  Langri bið knattspyrnuáhugamanna er því lokið um sinn og töluverð eftirvænting er augljóslega á meðal þeirra þegar styttist í byrjun móts. 

Sumarið í sumar verður nokkuð sérstakt fyrir þær sakir að nú leika 12 lið í hverri af þremur efstu deildum karla og 10 lið í Landsbankadeild kvenna.  Þetta þýðir auðvitað fleiri leiki og hefur það án vafa jákvæð áhrif á deildarkeppnirnar.  Allir geta tekið undir það að á undanförnum árum hefur umfjöllun og kynning á deildakeppni og bikarkeppni í knattspyrnu aukist verulega og öll umgjörð leikja hefur batnað til muna.  Þarna kemur margt til, mikill metnaður félaganna sjálfra og eftir atvikum sveitarfélaga viðkomandi liða, aukinn áhugi og metnaður fjölmiðla og síðast en ekki síst öflugur stuðningur helstu styrktaraðila við knattspyrnu.

Það eru ekki bara félagsliðin sem munu standa í ströngu í sumar því að landslið Íslands munu leika fjölmarga leiki bæði hér heima og erlendis.  A-landslið karla leikur vináttuleiki við Wales og Azerbaijan áður en alvaran hefst í undankeppni HM 2010 með leik gegn Noregi á útivelli 6. september.  A-landslið kvenna hefur góða möguleika á því að verða fyrsta A-landslið Íslands til þess að taka þátt í lokakeppni stórmóts en stúlkurnar eiga leiki gegn Serbíu, Slóveníu, Grikklandi og Frakklandi framundan í undankeppni.  Yngri landsliðin verða einnig í eldlínunni og má nefna að Norðurlandamót U17 ára stúlkna verður haldið hér á landi í lok júní og byrjun júlí og verða leikirnir leiknir á Suðurlandi og Suðurnesjum.  Einn riðill í EM undankeppni U17 ára karla verður einnig leikinn hér á landi í september.

Ekki má gleyma öllum þeim fjölmörgu leikjum sem fram fara í yngri flokkum en utan þeirra móta sem yngri flokkar taka þátt í á vegum KSÍ eru einnig opin mót sem aðildarfélög halda fyrir yngri flokka og hefur þeim mótum verið að fjölga umtalsvert á síðustu árum.

Það er spennandi og skemmtilegt knattspyrnusumar framundan og ég óska öllum þeim sem að knattspyrnu koma, leikmönnum, stjórnarmönnum, foreldrum, dómurum og öðrum starfsmönnum velfarnaðar og býð þau velkomin til leiks.  Fjölmennum á völlinn í sumar og tökum þátt í að skapa spennandi leik og fjölskylduvæna skemmtun. 

Þórir Hákonarson

Framkvæmdastjóri KSÍ