• fös. 08. jan. 2010
  • Pistlar

Horft fram veginn

Geir Þorsteinsson
Geir_Torsteinsson_1

Viðburðarríku ári er nú lokið og framundan eru spennandi verkefni hvort heldur sem er á innlendum eða erlendum vettvangi.  Landslið Íslands verða í eldlínunni og góðir möguleikar á góðum árangri á mörgum vígstöðvum. 

Stelpurnar okkar í A landsliði kvenna hafa styrkt stöðu sína verulega sem raunverulegir keppinautar bestu landsliða heims.  Þær áttu hug og hjörtu landsmanna þegar þær léku fyrir Íslands hönd í úrslitakeppni EM í Finnlandi í fyrra og  þrátt fyrir að úrslit leikja hafi ekki verið okkur hagstæð mátti litlu muna í öllum leikjunum og hetjuleg barátta liðsins vakti hrifningu og aðdáun.  Liðið hóf keppni í undankeppni HM 2011 á síðasta ári og úrslit haustsins gefa til kynna að Ísland muni áfram keppa grimmt um að komast í úrslitakeppnir stórmóta.  Ekkert má þó út af bregða og ef allt gengur eftir mun liðið leika úrslitaleik um efsta sæti síns riðils gegn Frökkum í ágúst.  Mikilvægur þáttur í undirbúningi fyrir leiki ársins er þátttaka í hinu árvissa og  virta Algarve-móti í Portúgal sem fram fer í febrúar, en þar keppa einungis bestu landslið heims í kvennaknattspyrnu, og stelpurnar okkar leika þar í efsta styrkleikaflokki.

A-landslið karla lauk keppni í undankeppni HM 2010 síðasta haust, en úrslitakeppnin fer fram í Suður-Afríku í sumar.  Neðsta sæti riðilsins varð raunin, en ljóst er að stígandi er í leik strákanna okkar, enda gáfu úrslit leikjanna í riðlinum til kynna að lítið vantar upp á til að liðið veiti öðrum þjóðum keppni í baráttunni um stigin í riðlakeppninni.  Framundan er undankeppni EM 2012 og ljóst er að þar verður markið sett hærra.  Dregið verður í riðla í Varsjá 7. febrúar.

Frammistaða yngri landsliðanna okkar hafa einnig gefið til kynna að framtíð íslenskrar knattspyrnu sé björt.  Skemmst er að minnast þess að U19 landslið kvenna lék í úrslitakeppni EM í Hvíta-Rússlandi sumarið 2009 og í raun hefur U19 lið kvenna ár eftir ár veitt sterkustu þjóðum Evrópu harða keppni.  Þá hefur U21 landslið karla haldið uppi mikilli flugeldasýningu í undankeppni EM, en ekkert landslið hefur skorað jafn mörg mörk í þeirri undankeppni það sem af er móti.  Þó er rétt að hafa í huga að erfiðir leikir eru framundan sem munu ráða úrslitum í riðlinum, en liðið á eftir að mæta Þjóðverjum heima og úti og svo Tékkum á útivelli.  Liðið hefur svo sannarlega á að skipa mörgum afar leiknum og efnilegum leikmönnum og ef allt gengur upp geta þessir piltar svo sannarlega komið á óvart.

Aðildarfélög KSÍ hafa ekki farið varhluta af þeim sviptingum sem hafa átt sér stað í íslensku fjármálalífi og rekstur ársins var mörgum félögum erfiður.  Þess ber þó að geta að sjaldan eða aldrei hafa jafn margir ungir og efnilegir leikmenn fengið tækifæri til að láta ljós sitt skína, bæði hjá körlum og konum og það hlýtur að vera jákvætt fyrir íslenska knattspyrnu.  Þessi þróun mun halda áfram á komandi keppnistímabili, enda gaf síðasta keppnistímabil fyrirheit um spennandi tíma á innlendum knattspyrnuvettvangi.  Leikirnir voru vel sóttir, mikið af mörkum skorað, og fram á sjónarsviðið komu fjölmargir teknískir og áhugaverðir leikmenn.  Það er mat flestra ef ekki allra í knattspyrnuhreyfingunni að sú uppbygging sem hefur átt sér stað í æfingaaðstöðu knattspyrnufólks á síðastliðnum árum – knattspyrnuhallir og æfingahús, gervigrasvellir og sparkvellir - sé nú að skila sér svo um munar.

Af öðru má nefna að lögð verður áhersla á enn meiri fræðslu til aðildarfélaga á árinu og fljótlega getur að líta nýjungar í þeim efnum.  Innra starf KSÍ er í sífelldri skoðun og væntum við þess að á árinu verði sett fram aðgengilegri stefnumótun sambandsins í mikilvægum málaflokkum sem vonandi mun leiða til þess að starf KSÍ og aðilarfélaga verður sýnilegra og betur kynnt.  Það er nauðsynlegt að starfi knattspyrnuhreyfingarinnar sé haldið á lofti og því komið á framfæri hversu mikilvægu starfi knattspyrnuhreyfingin sinnir í íslensku samfélagi.  Aðildarfélög KSÍ og KSÍ sinna afar mikilvægu uppeldisstarfi sem er ómetanlegt fyrir æsku landsins og með áframhaldandi starfi er framtíð íslenskrar knattspyrnu björt. 

Áfram Ísland!

Geir Þorsteinsson

formaður KSÍ