• lau. 13. feb. 2010
  • Pistlar

Ræða formanns á 64. ársþingi KSÍ

Geir Þorsteinsson
Geir_Torsteinsson_1

 

Forystufólk íslenskrar knattspyrnu og góðir gestir.

Góðir þingfulltrúar.

A landslið kvenna var í sviðsljósinu á starfsárinu þegar það lék í úrslitakeppni Evrópumóts landsliða sem fram fór í Finnlandi. Þetta var í fyrsta sinn sem A landslið Íslands í knattspyrnu tók þátt í úrslitakeppni og því um merkan áfanga að ræða í sögu KSÍ. Liðið stóð sig með prýði þrátt fyrir þrjá ósigra og fékk góðan stuðning landsmanna sem fylgdust með í sjónvarpinu sem og þeirra sem lögðu leið sína til Finnlands. Þrátt fyrir ósigur í öllum leikjum mótsins sýndi liðið að það á vel heima í keppni hinna bestu. Með sönnu má segja að kvennalandsliðið hafi verið skrautfjöður KSÍ á starfsárinu. Liðið hélt síðan uppteknum hætti í undankeppni HM og er enn á ný í harði keppni um að komast áfram, en auðvitað er verkefnið stórt enda komast aðeins 4 eða 5 Evrópulið í úrslitakeppni HM 2011 í Þýskalandi.

 

A landslið karla náði sér ekki á strik á árinu og bætti aðeins við sig einu stigi í undankeppni HM 2010 úr fjórum leikjum. Niðurstaðan var því 5 stig og síðasta sætið í riðli 9 í Evrópu, en liðið hafði einmitt verið dregið í riðilinn í fimmta styrkleikaflokki. Þrátt fyrir þessa niðurstöðu var ákveðið að endurnýja samninginn við þjálfara liðsins, Ólaf Jóhannesson, til tveggja ára. Honum tókst að bæta leik liðsins á árinu og eru bundnar væntingar við að það muni skila betri árangri í riðlakeppni EM 2012 sem hefst í haust en þar verða mótherjar okkar ekki af verri taginu, nefnilega landslið Portúgals, Danmerkur, Noregs og Kýpur.

 

Starfsemi yngri landsliða var í föstum skorðum og verkefni hefðbundin. U19 landslið kvenna náði þeim frábæra árangri að komast í úrslitakeppni EM sem að þessu sinni fór fram Í Hvíta-Rússlandi. U21 landslið karla hefur farið vel af stað í riðlakeppni EM 2011 og framundan eru spennandi leikir um að komast áfram í keppninni. Við þurfum ekki að kvíða framtíðinni – Ísland á marga efnilega leikmenn sem hafa metnað til að ná langt í íþrótt sinni og sumir hverjir hafa þegar gert knattspyrnuna að atvinnu sinni hjá erlendum félögum.

 

Þær voru margar gleðistundirnar á innlendum vettvangi á liðnu starfsári. Fyrst er telja frábært afrek FH sem varð Íslandsmeistari í meistaraflokki karla í fimmta sinn á sex árum. Breiðablik náði loks að vinna stóran titil í meistaraflokki karla þegar liðið varð bikarmeistari í fyrsta sinn. Úrslitaleikurinn markaði tímamót því hann var sá fimmtugasti í röðinni frá því keppnin hófst 1960. Valur var enn á ný besta lið landsins í meistaraflokki kvenna og varð bæði Íslands- og bikarmeistari, nú Íslandsmeistari fjórða árið í röð. Það var stór stund fyrir knattspyrnuna á Suðurlandi þegar Selfoss vann sér sæti til að leika í efstu deild karla í fyrsta sinn í sögu félagsins og það voru á sama hátt tímamót á Seltjarnarnesi þegar Grótta tryggði sér í fyrsta sinn rétt til að leika í næst efstu deild karla á komandi leiktíð. Þá var árangur Hauka glæsilegur en bæði karla- og kvennalið félagsins unnu sér sæti í efstu deild. Í yngri flokkum var líf og fjör á völlum landsins í fjölmörgum mótum sem skipulögð voru af KSÍ eða einstökum aðildarfélögum. Aldrei hefur KSÍ skipulagt jafnmarga leiki í 11 manna liðum eins og á starfsárinu og sýnir það vel að knattspyrnan nýtur sem fyrr mikilli vinsælda.

 

Málefni dómara voru tekin föstum tökum og það var mikil viðurkenning þegar Knattspyrnusamband Evrópu staðfesti aðild KSÍ að dómarasáttmála UEFA. Það sýndi vel að KSÍ hafði aukið gæði í starfi sínu á sviði dómgæslu hvað varðar umgjörð, menntun og þjálfun. Þá ákvað stjórn KSÍ að taka yfir niðurröðun dómara og aðstoðardómara á öllum leikjum Íslandsmóts og bikarkeppni í meistaraflokki og sátu því öll félög loks við sama borð í því efni.

 

Enn var haldið áfram að auka fræðslustarf KSÍ á starfsárinu og ljóst að umfangið var meira á því sviði en nokkru sinni fyrr. Einstaklega ánægjulegt var að Knattspyrnusamband Evrópu fól KSÍ að halda tvö námskeið hér á landi sem tókust vel auk þess sem nokkrir tugir íslenskra þjálfara fóru utan til menntunar á vegum KSÍ og Knattspyrnusambands Evrópu. Menntun þjálfara og annarra þeirra sem starfa innan vébanda KSÍ er nauðsynleg til þess að framfarir verði í okkar starfi. Eitt er að mennta þá sem stíga sín fyrstu skref en hitt er það að auka þekkingu þeirra sem eru í fremstu röð – fylgjast þarf með þróun leiksins og nýjum aðferðum og  miðla upplýsingum til fjöldans. KSÍ hefur ekki bara aukið fræðslu heldur hefur grasrótarstarf af ýmsu tagi verið aukið til þess að sem flestir geti tekið þátt í knattspyrnuleiknum og hefur KSÍ gerst aðili að grasrótarsáttmála UEFA til þess að efla starf sitt á þessum vettvangi.

 

Rekstur KSÍ var í föstum skorðum á starfsárinu þrátt fyrir að umfang starfseminnar hafi aldrei verið meira og aldrei hafi sambandið tekið á sig jafn miklar fjárhagslegar skuldbindingar vegna mótahalds innanlands. Fjárhagslegur stuðningur KSÍ við aðildarfélögin náði nýjum hæðum um leið og sett var met í fjölda landsleikja og ýmis önnur starfsemi aukin. Þetta gerðist um leið og að þrengdi í tekjuöflun innanlands og sér í lagi lækkuðu framlög íslenskra fyrirtækja til íþróttastarfsemi sem bitnaði mjög á aðildarfélögum sambandsins. Það er ánægjulegt að geta greint frá því að rekstur KSÍ skilaði um 50 m. kr. hagnaði  á starfsárinu og lán í erlendri mynt upp á tæpar 600 m. kr. var greitt upp. Í fyrsta sinn í rúman áratug voru ekki vaxtaberandi skuldbindingar á KSÍ um sl. áramót. Styrkur Knattspyrnusambands Íslands mun að mínu viti ávallt grundvallast á fjárhagslegu sjálfstæði. Það eru erfiðir tímar og því nauðsynlegt að fara varlega í rekstri KSÍ en engu að síður verða styrkir til aðildarfélaga og rekstur KSÍ á nýju starfsári að mestu með sama sniði og á síðasta starfsári.

 

Stjórn KSÍ þakkar ykkur forystusveit íslenskrar knattspyrnu fyrir frábær störf á starfsárinu og fyrir gott samstarf. Ég sendi ykkur líka kveðju Michel Platini forseta Knattspyrnusambands Evrópu en ég átti með honum fund sl. sunnudag í Varsjá. Það er fyrir ykkar miklu störf sem knattspyrnuhreyfingin á Íslandi stendur eins sterk og raun ber vitni. Ég óska ykkur gæfu á komandi keppnistímabili. Það má öllum vera ljóst að drengur eða stúlka sem ratar í okkar hreyfingu fær góðar móttökur og heilbrigt uppeldi sem skilar sér í leik og starfi.

 

Á persónulegum nótum vil ég segja ykkur að síðustu mánuðir hafa verið mér erfiðir en ég vil fullvissa ykkur um að ást mín á íslenskri knattspyrnu stendur óhögguð. Það er bara einu sinni svo að líf mitt hefur frá unga aldri að stórum hluta snúist um störf fyrir okkar hreyfingu – ég þekki ekki annað. Ég hef alla tíð unnið af heilindum fyrir íslenska knattspyrnu og mun gera svo áfram. Ég hef enga þörf fyrir að vera í sviðsljósinu – þar á frægðarsól leikmanna og þjálfara að skína. Það er hins vegar klárt mál að ég skorast ekki undan að koma fram fyrir ykkar hönd til sóknar eða varnar fyrir okkar fögru íþrótt. Ég vil þakka ykkur góðan stuðning við mig – hann er mér mikils virði.

 

KSÍ treður ekki illsakir við einn eða neinn og efnir ekki til ófriðar og saman munum við ávallt standa vörð um ímynd leiksins. Þeir sem að okkur sækja mæta knattspyrnuhreyfingu þar sem fólk stendur saman og tekur ákvarðanir sem sjálfstæð samtök í frjálsu samfélagi í fullu samræmi við gildandi landslög og reglur.

 

Verkefnin framundan eru eins og alltaf fjölmörg. Sigmundur Ó. Steinarsson hefur hafið ritun sögu Íslandsmótsins sem mun koma út á næsta ári þegar 100. mótið fer fram. Setja þarf á laggirnar afmælisnefnd til þess að fagna 100. mótinu með viðeigandi hætti árið 2011. Unnið verður að stefnumótun fyrir KSÍ á þessu ári; fjallað verður um læknisskoðun leikmanna; gefnir verða út bæklingar til að auka fræðslu um umhirðu grasvalla og byggingu leikvanga; og semja þarf um útsendingar innanlands í sjónvarpi frá íslenskri knattspyrnu svo fátt eitt sé nefnt.

 

Ársþing KSÍ er vettvangur til umræðu og breytinga. Við hittumst hér til að ræða saman formlega, en ekki síður til þess að bera saman bækur okkar með óformlegum hætti. Íslensk knattspyrna nýtur mikilla vinsælda nú sem fyrr þegar ég segi 64. ársþing Knattspyrnusambands Íslands sett