• fim. 06. maí 2010
  • Fræðsla

Grasrótardagur UEFA - Berfætt í boltaleik

Grasrótarverkefni UEFA
uefa-grassroots-minna

Þann 19. maí næstkomandi stendur UEFA (Knattspyrnusamband Evrópu) fyrir sérstökum Grasrótardegi (UEFA Grassroots Day).  Dagurinn 19. maí er ekki valinn af tilviljun, heldur er þessi dagur sérstaklega valinn til að tengja verkefnið úrslitaleik Meistaradeildar UEFA, sem fram fer laugardaginn 22. maí.  Með Grasrótardeginum er minnt á að afreksknattspyrna á hæsta þrepi getur ekki þrifist án heilbrigðrar grasrótar í knattspyrnuhreyfingunni. 

Skilaboðin með Grasrótardeginum eru einföld:  Knattspyrna er fyrir alla.  UEFA hefur sett sér það markmið að gera Grasrótardaginn að árlegum viðburði um gjörvalla Evrópu.  Öll 53 aðildarlönd UEFA taka þátt í Grasrótardeginum með ýmsum og jafnvel ólíkum hætti, en öll verkefnin eiga það þó sameiginlegt að einblína á grasrót knattspyrnuíþróttarinnar.

Knattspyrna er vinsælasta íþrótt heims og á sér engin landamæri.  Hvert sem litið er í heiminum er leikin knattspyrna.  Iðkendur á heimsvísu eru um 300 milljónir, sem gera u.þ.b. 5% allrar flóru mannkyns. KSÍ hefur sett stefnuna á að grasrótarverkefnið í tilefni af Grasrótardeginum hér á landi verði að minna á að ekki eru öll börn heimsins svo lánsöm að geta leikið knattspyrnu í við ásættanlegan aðbúnað eða í viðeigandi skóbúnaði.  Í raun er það þannig að mörg börn eiga ekki einu sinni skóbúnað, hvað þá takkaskó. 

Hugmynd KSÍ gengur út á það að vikuna 17. til 21. maí verði leikin knattspyrna að minnsta kosti einu sinni í íþróttatímum hvers árgangs allra grunnskóla landsins og að börnin sem taka þátt verði þá án skóbúnaðar, þ.e. berfætt, eins og raunin er með svo mörg börn annars staðar í heiminum. 

Vonumst við til að hver og einn skóli taki myndir af framtakinu, birti á heimasíðum sínum og sendi jafnframt myndir og tilkynningu um þátttöku á KSÍ á netfangið ksi@ksi.is og veki þannig athygli á þeirri staðreynd sem að ofan greinir, þ.e. að börn heimsins eru ekki öll svo lánsöm að geta leikið sér við ásættanlegan aðbúnað.

Nánari upplýsingar um Grasrótardag UEFA má finna á www.uefagrassrootsday.com.

Ef frekari upplýsinga er óskað þá vinsamlegast hafið samband við grasrótarfulltrúa KSÍ, Guðlaug Gunnarsson, í netfangið gudlaugur@ksi.is