• fös. 04. jún. 2010
  • Pistlar

Knattspyrnu-veisla framundan

Geir Þorsteinsson
Geir_Torsteinsson_1

Föstudaginn 11. júní hefjast veisluhöld sem boðið er til á fjögurra ára fresti.  Á veisluborðinu verða 64 leikir þar sem flestir af bestu knattspyrnumönnum heims verða á meðal þátttakenda.  Gestgjafar verða Suður-Afríkubúar en í fyrsta skiptið í 80 ára sögu keppninnar fer úrslitakeppnin fram í Afríku.  Tilhlökkunin hjá Suður Afríkubúum er gríðarleg, mikill fjöldi starfsmanna starfar við keppnina og um 18.000 sjálfboðaliðar frá öllum heimshornum sinna ýmsum störfum tengdri keppninni.  Alls sóttu um 70.000 manns um sjálfboðaliðsstörfin og komu umsóknirnar frá 170 löndum.

Öll heimsbyggðin fylgist með og erum við Íslendingar þar með taldir.  Fjölmiðlar hér á landi sýna keppninni jafnan mikinn áhuga og verða allir leikir keppninnar sýndir í beinni útsendingu, en til þess þurfti tvær sjónvarpsstöðvar.  Áhuginn er gríðarlega mikill hjá landsmönnum eins og öðrum jarðarbúum, jafnt körlum sem konum og ungum sem öldnum, og flestir eigna sér þjóð sem þeir halda með í keppninni, sumir fleiri en eina.

Í úrslitakeppninni keppa 32 þjóðir um titilinn, þar á meðal eru þjóðirnar sem nánast undantekningarlaust „mæta í veisluna“ eins og Brasilía, Argentína, Þýskaland, Ítalía og Spánn svo einhverjar séu nefndar.  En þarna eru líka þjóðir sem við sjáum ekki oft á þessum vettvangi.  Það verður spennandi að sjá hvort Slóvenía, Hondúras, Norður-Kórea og heimamenn í Suður-Afríku slái í gegn í veislunni.  Aðeins einu sinni hefur þjóð orðið heimsmeistari þegar úrslitakeppnin er leikin utan eigin heimsálfu.  Það voru Brasilíumenn sem urðu heimsmeistarar í Svíþjóð árið 1958, en þá steig 17 ára leikmaður sín fyrstu skref á HM, sá piltur var kallaður Pelé.  Það er einmitt þannig með Heimsmeistarakeppnina, að þar verða stórstjörnurnar til.

Knattspyrnusamband Íslands veitir Afríku sérstaka athygli í tengslum við Heimsmeistarakeppnina og tekur þátt í verkefnum tengdum álfunni og keppninni, m.a. í samstarfi við Afríka 20:20 sem er félag áhugafólks um Afríku sunnan Sahara.  Þessum verkefnum er ætlað að vekja athygli og áhuga á Afríku sem mikilli knattspyrnuálfu, enda er knattspyrnuíþróttin allsráðandi í allri álfunni.

Meðal þeirra verkefna sem KSÍ tekur þátt í er sýning á ljósmyndum Páls Stefánssonar.  Myndirnar, sem sýndar verða í höfuðstöðvum KSÍ í sumar, eru úr ljósmyndabók Páls sem ferðaðist um Afríku og tók myndir af íbúum hinna ýmsu landa við knattspyrnuiðkun, alveg frá stórum landsleikjum og niður í hreinusta form grasrótarknattspyrnu.  Á myndum Páls kemur greinlega fram hversu ríkur þáttur knattspyrnan er af daglegu lífi fólks í álfunni.  Þess má geta að KSÍ styrkti jafnframt útgáfu bókarinnar.  Þá mun sérstakur gestur verða á súpufundi KSÍ þann 22. júní, Dr. David Sanders sem er sérfræðingur í lýðheilsumálum í Afríku.  Sanders mun flytja erindi um heimsmeistarakeppnina og áhrif hennar á heilbrigðismál í Suður-Afríku.

Uppgangur knattspyrnu í Afríku hefur verið gríðarlegur á síðustu árum og spennandi verður að fylgjast með fyrstu Heimsmeistarakeppninni þar í landi. 

Framundan er sannkölluð knattspyrnuveisla.

Njótið vel.