• mið. 14. mar. 2012
  • Fræðsla

Sjúkrakostnaður íþróttafélaga og umsóknir um endurgreiðslu

Knattspyrnusamband Íslands
ksi-merki

 

Miðvikudaginn 21. mars milli kl. 13 og 15 býður KSÍ upp á fyrirlesturinn Sjúkrakostnaður íþróttafélaga: Leiðbeiningar um endurgreiðslu sjúkrakostnaðar hjá ÍSÍ og SÍ. Fyrirlesturinn verður haldinn í húsakynnum KSÍ. Forsvarsmönnum allra knattspyrnudeilda landsins er boðið og er áhersla lögð á að framkvæmdastjórar eða aðrir sem sinna umsóknum um endurgreiðslu sjúkrakostnaðar sæki fyrirlesturinn.

Sjúkrakostnaður knattspyrnudeilda vegna íþróttaslysa knattspyrnumanna hefur aukist síðastliðin ár samhliða minni kostnaðarþátttöku Íþróttasambands Íslands (ÍSÍ) og Sjúkratrygginga Íslands (SÍ). Sjúkrakostnaður telur orðið árlega fleiri milljónir hjá sumum félögum. Endurgreiðslu sjúkrakostnaðar vegna slysa iðkenda má sækja til ÍSÍ, SÍ eða til tryggingafélags viðkomandi íþróttafélags.

Í fyrirlestrinum verður fyrst og fremst horft til iðkenda sem eru 16 ára og eldri og eru samningsbundnir sínu félagi sem þarf að greiða sjúkrakostnað þeirra. Hér er átt við lækniskostnað og sjúkraþjálfun þegar rætt er um sjúkrakostnað og er það sá kostnaður sem hægt er að sækja um endurgreiðslu á sé skilyrðum fullnægt. Auk þess er í vissum tilvikum hægt að sækja endurgreiðslu vegna lyfjakostnaðar og dagpeninga til Sjúkratrygginga Íslands og tryggingafélaga vegna fjarvista iðkenda.

Líkur eru á að nokkur fjöldi knattspyrnudeilda sæki ekki endurgreiðslur á sjúkrakostnaði knattspyrnumanna, a.m.k. ekki til Sjúkratrygginga Íslands sem endurgreiða allan sjúkrakostnað vegna slysa knattspyrnumanna á föstum launum sé skilyrðum fullnægt.

Markmiðið með fyrirlestrinum er að kynna fyrir félögunum hvernig á að sækja endurgreiðslu sjúkrakostnaðar og setja upp vinnuferla til að halda utan um endurgreiðslur.

Fyrirlesturinn skiptist í eftirfarandi sex hluta:

1)      Inngangur

2)      Íþróttaslysasjóður ÍSÍ

3)      Sjúkratryggingar Íslands

4)      Tryggingafélög

5)      Vinnulag vegna umsókna um endurgreiðslu sjúkrakostnaðar

6)      Umræður 

Fyrirlesari er Svavar Jósefsson, áður framkvæmdastjóri knattspyrnudeildar Breiðabliks.