• mán. 04. feb. 2013
  • Landslið

"Þjóðarstoltið mun fleyta okkur langt"

Lars Lagerbäck ræðir við rússneska fjölmiðla
IMG-20130204-01536

Lars Lagerbäck, þjálfari A landsliðs karla, ræddi í dag við rússneska fjölmiðla í Marbella á Spáni, en fjölmargir fulltrúar þeirra hafa fylgt landsliði Rússlands fyrir vináttulandsleikinn við Ísland, sem fram fer á miðvikudag.

Lars var fyrst spurður út í ástæður þess að íslenska liðið væri að spila við Rússland á þessum leikdegi

„Við höfðum úr nokkrum möguleikum að velja hvað mótherja varðaði á þessum leikdegi. Af þeim var Rússland mest spennandi kosturinn, með eitt af 10-15 bestu landsliðum heims að mínu mati, og með einn af þekktustu og reynslumestu þjálfurum heims í Fabio Cappello. Við viljum spila við sterkar þjóðir, þannig lærum við mest hvernig við getum spilað gegn þessum sterku liðum. Ísland er fámenn þjóð, rétt rúmlega 300 þúsund, á meðan Rússar eru 150 milljónir manna. Við erum samt með marga unga leikmenn sem geta náð langt, og suma sem hafa þegar náð langt og geta náð enn lengra. Við lærum mest á því að spila með þessum leikmönnum við lið eins og Rússland, mjög sterkt lið með mjög öfluga leikmenn."

Hefur Lars ákveðið hvernig hann ætlar að stöðva hættulegustu sóknarmenn Rússa?

„Ég legg ekki mikla áherslu á einstaka leikmenn í þeim liðum sem ég spila við, heldur hef ég meiri trú á því að lið nái árangri með því að vera skipulögð og öguð, verjist sem ein heild og sæki sem ein heild. Þá eigum við bestu möguleikana á að stöðva einstaka leikmenn."

Lars Lagerbäck ræðir við rússneska fjölmiðlaÞað er mikið af peningum í rússneskum fótbolta og mikill vöxtur. Aðspurður um fjármál í íslenskum fótbolta samanborið við þann rússneska sagði Lars að það væri í raun ekki hægt að bera svona þjóðir saman hvað þetta varðar.

„Hvað peningana varðar og hvað mannfjöldann varðar eru Rússland og Ísland ekki samanburðarhæf. Leikmenn okkar eru stoltir af því að spila fyrir Ísland og það er þetta stolt sem mun fleyta okkur langt. Svo erum við með unga leikmenn sem eiga svo sannarlega framtíðina fyrir sér. Gylfi Sigurðsson hefur ekki verið að spila eins mikið og hann myndi vilja hjá Tottenham, en ég hef trú á því að það muni breytast. Svo er það Kolbeinn Sigþórsson, sem hefur skorað 8 mörk í 11 landsleikjum fyrir Ísland, tölfræði sem myndi sóma sér vel hjá hvaða stórþjóð sem er."

Rússneskir fjölmiðlar hafa eftir Cappello að hann telji að Ísland spili svipaða knattspyrnu og Norður-Írland, sem er með Rússum í riðli í undankeppni HM 2014. Er íslenska liðið undirbúið fyrir leikinn?

„Við höfum skoðað nokkra leiki með rússneska liðinu, sem spilar agaðan varnarleik og fær ekki á sig mikið af mörkum, hefur t.d. haldið hreinu í fjórum leikjum í undankeppni HM".

Lars var reyndar spurður fjölmargra annarra spurninga af rússneskum blaðamönnum, eins og t.d. hver væri hans uppáhalds leikari, uppáhalds kvikmynd, hvort hann þekkti nafna sinn Lars von Trier leikstjóra, og loks hvað hann hafi gefið sjálfum sér í jólagjöf, en þessi reynslumikli þjálfari viðurkenndi að honum fyndist svona spurningar alltof erfiðar. „Spurningar um fótbolta eru miklu auðveldari" sagði þjálfarinn reynslumikli og brosti. „Þjálfun íslenska landsliðsins er mjög spennandi verkefni. Ég hef notið þessa starfs mjög hingað til og mun njóta þess áfram."