• fös. 23. ágú. 2013
  • Leyfiskerfi

Toppeinkunn í árlegri gæðaúttekt UEFA

Gæðastimpill SGS
SGSapproval_UEFA_ENG_horiz_RGB

Skipulag og vinnureglur leyfiskerfis KSÍ fá toppeinkunn í árlegri gæðaúttekt UEFA, sem fram fór í vikunni.  Það er alþjóðlega matsfyrirtækið SGS sem framkvæmir úttektina í öllum aðildarlöndum UEFA.  Í umsögn fulltrúa SGS um leyfiskerfi KSÍ segir að það sé uppsett og rekið á „framúrskarandi“ hátt.

Úttekt þessi er sem fyrr segir árleg, er afar víðtæk og tekur á öllum þáttum leyfiskerfisins og skipulags þess.  Knattspyrnusamband sem stenst ekki þessa gæðaúttekt á það á hættu að missa leyfið til að stjórna leyfiskerfinu og gefa út þátttökuleyfi, og þá myndi UEFA taka yfir leyfisstjórn í viðkomandi landi.

Alls þarf KSÍ að uppfylla 16 ákvæði í mörgum liðum í gæðastaðli leyfiskerfisins, sem UEFA gefur út. Engar athugasemdir voru gerðar og var gæðavottunin staðfest.  Fulltrúi SGS lýsti að öllu leyti yfir mikilli ánægju með uppsetningu leyfiskerfis KSÍ, skipulag þess og vinnuferla.

SGS staðfesti því gæðavottun á leyfiskerfi KSÍ.  Vottunin er veitt til þriggja ára í senn, en er endurskoðuð á ári hverju.  Á þessu ári rann einmitt út gæðavottun frá 2010 og hefur hún nú verið endurnýjuð, gildir frá ágúst 2013 til og með ágúst 2016.